Gjöldum dembt á í blindni

Gunnar Tryggvason, hafnarstjóri Faxaflóahafna.
Gunnar Tryggvason, hafnarstjóri Faxaflóahafna. Ljósmynd/Faxaflóahafnir

„Okkur finnst nokkuð óvarlega farið. Ég skil markmið ríkisins að auka skatttekjur af greininni en rétta leiðin er kannski að gera þetta með hóflegri skrefum.“

Þetta segir Gunnar Tryggvason, hafnarstjóri Faxaflóahafna, um álagningu innviðagjalds á skipafélög sem tók gildi um áramót. Borið hefur á afbókunum skipafélaga og önnur sem hafa bókað á undanförnum árum halda að sér höndum.

Gunnar segir að svo virðist sem andstaða sé við að skoða möguleg áhrif af innviðagjöldum, heldur sé þeim bara einhvern veginn dembt á í blindni.

Risaskref með stuttum fyrirvara

Stjórnvöld hafi verið á ágætri leið en nú sé tekið eitthvað risaskref með stuttum fyrirvara og látið koma í ljós hvaða áhrif það hafi.

„Við vöruðum við þessu í grein sem við skrifuðum áður en gjaldið var lagt á,“ segir hann en ítrekar þó að Faxaflóahafnir styðji að hið opinbera reyni að auka skatttekjur sínar af greininni.

„Þetta er bara kannski ekki alveg rétta leiðin. Við reiknum með því að núna eftir að nýr viðmælandi er kominn í ráðuneytið fáum við áheyrn hjá ríkisstjórn,“ segir Gunnar en lög um breytingarnar voru samþykkt í tíð starfsstjórnar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins 18. nóvember, aðeins rúmum mánuði fyrir gildistöku.

Hafnarstjórinn áhyggjufullur

Aðspurður segist Gunnar hafa áhyggjur af því að þau skipafélög sem annaðhvort hafa haldið að sér höndum við bókanir eða afbókað í kjölfar þess að gjaldið var sett á, muni ekki koma til baka.

Þá segist hann hafa áhyggjur af því að þetta verði högg fyrir þær fjárfestingar sem tekin hefur verið ákvörðun um að ráðast í, og vísar þar til fjárfestinga í landtengingum skipa og fyrirhugaðri farþegamiðstöð.

Stendur til að reyna að ræða við forsvarmenn skipafélaga sem hafa langa sögu um komu um ekki er von á í sumar?

„Við viljum vera hinn skynsami meðalvegur og tökum ekki alltaf afstöðu með skipafélögunum en við eigum mjög erfitt með að rökstyðja þessi vinnubrögð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert