Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um mann sem hafði ekið á aðra bifreið og flúði af vettvangi í dag. Maðurinn fannst skömmu síðar og var handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Hann hefur verið vistaður í fangaklefa vegna málsins þar til hægt verður að taka af honum skýrslu.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um verkefni hennar frá klukkan 5 í morgun og til klukkan 17 í dag. Þrír voru vistaðir í fangaklefa lögreglu á tímabilinu.
Lögreglustöð eitt, sem sinnir verkefnum í stórum hluta borgarinnar og á Seltjarnarnesi, stöðvaði mann við umferðareftirlit og reyndist maðurinn vera án gildra ökuréttinda og hafði hann ekki staðið skil á vátryggingu bifreiðarinnar. Skráningamerki bifreiðarinnar var því fjarlægt.
Einnig barst lögreglustöðinni tilkynning um einstakling sem hafði komið fyrir tjaldi í miðborginni. Maðurinn var beðinn um að taka tjaldið saman og finna sér annan stað, sem hann gerði án vandkvæða.
Lögreglustöð tvö, sem sinnir verkefnum í Hafnafirði, Garðabæ og Álftanesi, barst tilkynning um innbrot í iðnaðarbil þar sem skemmdaverk höfðu verið unnin á bifreið þar innandyra. Málið er til rannsóknar hjá lögreglu.
Tilkynnt var um þjófnað í verslunarmiðstöð og var málið afgreitt með vettvangsskýrslu.
Þá var einn ökumaður stöðvaður við almennt eftirlit grunaður um akstur undir áhrifum áfengis. Maðurinn var fluttur á lögreglustöð vegna málsins.
Lögreglustöð fjögur, sem sinnir verkefnum í Grafarvogi, Mosfellsbæ og Árbæ, sinnti verkefni þar sem tilkynnt var um þjófnað í matvöruverslun í tvígang. Málið var afgreitt með vettvangsskýrslu.