Par vann myglumál fyrir héraðsdómi

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Héraðsdómur Reykjaness hefur fallist á hluta af kröfu pars sem krafðist afsláttar af kaupverði fasteignar vegna galla sem mátti rekja til raka sem kom í ljós tveimur árum eftir afhendingu eignarinnar.

Mat meirihluti dómsins það svo að parið hefði með matsgerð löggilts fasteignasala sýnt fram á verðmætisrýrnun fasteignarinnar og var fyrri eiganda gert að greiða þeim 6.500.000 krónur auk vaxta. Einnig þarf fyrrum eigandinn að greiða þeim 3.000.000 krónur í málskostnað.

Þurftu að fjarlægja byggingarefni og gólfefni 

Undir lok janúar 2023 varð parið vart við myglu í vaskaskáp í innréttingu í eldhúsi sínu. Flutti parið út úr eigninni og hafði samband við verkfræðistofuna Verkís um úttekt á ástandi íbúðarinnar.

Í þeirri skýrslu hafi svo komið fram að raki og mygla hafi fundist í íbúðinni og var mælt með því að allt byggingarefni yrði fjarlægt af útveggjum og allt gólfefni fjarlægt af rýmum með útveggjum, þ.e.a.s. á öllum herbergjum að baðherbergi og þvottahúsi undanskildum.

Þess ber að geta að parið hafði sjálft gert upp baðherbergið rúmum tveimur mánuðum eftir kaupin 2021 eftir að hafa orðið vart við raka og myglu þar inni. Hins vegar hafði fyrrverandi eigandi ekki verið upplýstur um þær aðgerðir.

Horft til matsgerðar löggilts fasteignasala

Var það mat dómsins að engin ummerki hefðu verið sýnileg um rakaskemmdir í baðherbergi eignarinnar þegar íbúðin var keypt. Þá þótti ósannað að fyrrverandi eigandinn hafi vitað af rakaskemmdum í íbúðinni við söluna og afhendingu.

Segir hins vegar í dómnum að við úrlausn málsins hafi verið litið matsgerðar löggilts fasteignasala sem fenginn var inn sem dómkvaddur matsmaður. Hann hafi metið svo að íbúðin hafi í raun átt að kosta 8 milljónum krónum minna en hún kostaði þegar hún var keypt.

Dómurinn mat það svo að tilkynning parsins til fyrrverandi eigandans um rakaskemmdirnar á baðherberginu hafi ekki verið innan sanngjarns frests þar sem tæplega tvö ár voru liðin síðan parið hafði uppgötvað þær en fyrrverandi eigandinn fékk tilkynninguna með bréfi í apríl 2023.

Hins vegar þótti tilkynningin um restina af rakaskemmdunum vera innan sanngjarns frests þar sem þær voru uppgötvaðar í janúar og febrúar 2023 og tilkynntar í sama bréfi.

Ágalli baðherbergisins dreginn frá

Líkt og fyrr segir horfði dómurinn til matsgerðar fasteignasala sem mat svo að íbúðin hafi verið 8 milljónum króna dýrari þegar hún var keypt en dregið var frá ágalla baðherbergisins sem metinn var á 1,5 milljónir.

Fyrrverandi eiganda íbúðarinnar er því gert að greiða parinu 6.500.000 krónur með dráttarvöxtum frá 10. maí 2024 til greiðsludags og 3.000.000 krónur í málskostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert