Landsréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manni sem grunaður er um að hafa dvalið ólöglega hérlendis. Gæsluvarðhaldsúrskurðurinn er til 31. janúar.
Í úrskurðinum segir að lögregla hafi verið við eftirlit við Grímsbæ þegar hún kom auga á manninn og ætlaði að ræða við hann. Hann hafi þá hlaupið í burtu og leitt hjá sér ítrekuð fyrirmæli lögreglu.
Síðar sama dag hafi lögregla veitt bifreið athygli við Tjarnargötu. Mikil kannabislykt hafi verið úr bifreiðinni og maðurinn setið þar í farþegasætinu. Hann hafi þá verið handtekinn, grunaður um sölu fíkniefna og fyrir að fylgja ekki fyrirmælum lögreglu.
Aðspurður hvers vegna hann hljóp frá lögreglu svaraði hann „You guys are slow, I was waiting for you“, en það mætti þýða sem „þið voruð hægfara, ég beið eftir ykkur.“
Við handtökuna hafði maðurinn á sér meint kannabisefni, MDMA, kókaín, THC hylki og tóbaksblandað kannabisefni. Þá játaði hann að hafa dvalið á Íslandi í um 4 til 5 mánuði.
Í úrskurðinum kemur fram að maðurinn hafi komið til Íslands þann 30. ágúst 2024 og sagst vera einn á stuttu ferðalagi, þá hafi hann sýnt flugmiða frá landi þann 2. september 2024.
Lögregla telur ljóst að maðurinn hafi dvalið ólöglega hérlendis og hann fari hér huldu höfði en hann hefur neitað að gefa upp dvalarstað og hafa vitni borið til um sölu mannsins á hinum ýmsu fíkniefnum.
Maðurinn hefur dvalið í 159 daga á Schengensvæðinu og er án dvalarleyfis.
Mál hans hefur verið sent til meðferðar hjá Útlendingastofnun.