Þörf á fleiri læknum í öfluga heilsugæsluna

Þörf er á mun fleiri heimilislæknum til starfa. Slíkir þekkja …
Þörf er á mun fleiri heimilislæknum til starfa. Slíkir þekkja vel til aðstæðna skjólstæðinga og sú samfella breytir miklu um þjónustu. mbl.is/Sigurður Bogi

Í heilbrigðiskerfinu hefur heilsugæslan á síðustu árum fengið veigameira hlutverk en var. Því þarf að fylgja eftir með eðlilegri mönnun í læknastétt,“ segir Oddur Steinarsson, heimilislæknir og framkvæmdastjóri Heilsugæslunnar á Kirkjusandi í Reykjavík.

Í stefnuyfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar segir að stefnan skuli vera sú að landsmönnum öllum sé tryggð þjónusta heimilislæknis. Í því sambandi er talað um „þjóðarmarkmið“ og slíkt segist Oddur taka undir. Talsvert þurfi þó til svo þetta verði að veruleika.

Heimilislæknar þurfa að vera um 400

Oddur Steinarsson.
Oddur Steinarsson.

„Í dag eru 223 heimilislæknar með starfsleyfi á Íslandi og um 160 af þeim starfandi í faginu og þónokkrir í hlutastöðum. Þarna vantar fleiri,“ segir Oddur. Hann átti sæti í nefnd sem starfaði í umboði fyrri heilbrigðisráðherra og kortlagði þörf á mönnun í læknisþjónustu.

Ábendingar nefndarinnar eru að þörf sé á enn frekari styrkingu grunnnáms í læknisfræði og eflingu sérnáms. Þá þurfi að breyta vinnuskipulagi og verkaskiptingu meðal lækna. Eins þurfi átak í mönnun í heimilislækningum, ekki síst utan höfuðborgarsvæðsins. Fjöldi starfandi heimilislækna á landinu þyrfti að vera nálægt 400 svo heilsugæslan sé vel mönnuð. Viðmið fagfélagsins er einn læknir í fullri stöðu á hverja 1.200 íbúa.

„Auðvitað hefur margt ágætt verið gert til eflingar heilsugæslu. Ég nefni þar til dæmis stofnun miðlægs þjónustuvers, þar sem um 100 hjúkrunarfræðingar sinna og svara fjölbreyttum erindum. Koma málum í farveg og leysa úr mörgu. Þó þarf fleiri lækna,“ segir Oddur. Þar nefnir hann stöðina á Kirkjusandi sem dæmi. Þar séu ellefu heimilislæknar, en níu við störf í dag. Af þeim fari fjórir á eftirlaun á næstu árum og að fá nýja í þeirra stað sé áskorun. Því þurfi að hugsa málin upp á nýtt og laða fleiri kandídata að til að leggja heimilislækningar fyrir sig.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út þriðjudaginn 21. janúar. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert