Vill svipta „erlenda brotamenn“ ríkisborgararétti

Diljá segir að flest Norðurlönd leyfi þetta og að Ísland …
Diljá segir að flest Norðurlönd leyfi þetta og að Ísland eigi að líta til Norðurlanda í þessum efnum. Samsett mynd

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, mun leggja fram frumvarp um sviptingu íslensks ríkisborgararéttar af ríkisborgurum sem fæðst hafa erlendis, meðal annars ef þeir gerast sekir um alvarleg afbrot.

Þetta segir hún í samtali við mbl.is en í gær birti hún grein í Morgunblaðinu undir fyrirsögninni „sviptum erlenda brotamenn íslenskum ríkisborgararétti.“

„Þetta eru lagaheimildir sem eru til staðar á Norðurlöndunum þannig mér finnst það bara fullkomlega eðlilegt. Það eru gríðarlega mikil réttindi sem felast í því að fá íslenskan ríkisborgararétt og ekki sjálfgefið að þú haldir þeim réttindum þínum,“ segir Diljá í samtali við mbl.is.

Leggur fram frumvarpið á fyrstu dögum þingsins

Aðeins er um að ræða einstaklinga sem hafa lögum samkvæmt öðlast ríkisborgararétt eftir að hafa sótt um hann, sem sagt fólk sem er af erlendu bergi brotið.

Samkvæmt frumvarpinu þá gæti aðili misst ríkisborgararéttinn ef hann gerist sekur um alvarlegt afbrot eða ef hann gefur rangar eða villandi upplýsingar til stjórnvalda við umsókn um ríkisborgararétt.

Hún segir að hún hafi lagt fram þetta frumvarp ásamt öðrum þingmönnum Sjálfstæðisflokksins á síðasta kjörtímabili og hún hyggst leggja það fram aftur þegar þing kemur saman í febrúar.

„Ég ætla leggja þetta fram strax á fyrstu dögum þingsins og sömuleiðis óska eftir samtali við nýjan dómsmálaráðherra um viðhorf hennar til þessa,“ segir hún og vísar í Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra.

Myndi ekki gera fólk ríkisfangslaust

Þetta myndi aðeins ná til þeirra sem eru með tvöfalt ríkisfang. Því væri ekki hægt að svipta ríkisborgararétt af einstakling ef hann yrði fyrir vikið ríkisfangslaus, en það færi gegn stjórnarskrá.

Að hennar vitund þá eru allar Norðurlandaþjóðir með svona ákvæði í lögum nema Svíþjóð, sem sé einnig byrjað að skoða þetta.

„Auðvitað eigum við að líta til Norðurlandanna í þessum efnum,“ segir Diljá.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um sviptingu dvalarleyfis hjá dvalarleyfishöfum ef þeir gerast uppvísir um alvarleg afbrot, en ekki er talað um ríkisborgara sem eru af erlendu bergi. 

Guðrún Hafsteinsdóttir, fyrrverandi dómsmálaráðherra, hafði einnig sett slíkar breytingar á dagskrá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert