Ætla að kæra Sindra fyrir fjárdrátt

Snæbjörn Bjarnason leikhússtjóri segir Tjarnabíó ætla að kæra Sindra Þór …
Snæbjörn Bjarnason leikhússtjóri segir Tjarnabíó ætla að kæra Sindra Þór Sigríðarson. Samsett mynd

Snæbjörn Brynjarsson, leikhússtjóri hjá Tjarnarbíói, segir að leikhúsið hyggist kæra fyrrum framkvæmdastjóra þess, Sindra Þór Sigríðarson, fyrir fjárdrátt yfir þriggja ára tímabil.

Þetta kemur fram í færslu Snæbjarnar á Facebook.

„Því miður get ég staðfest þær fréttir um að fyrrum framkvæmdastjóri Tjarnarbíós sé grunaður um fjárdrátt. Um er að ræða langt tímabil, eða allt frá lokum árs 2021 þegar Sindri fékk aðgang að sjóðum Tjarnarbíós þar til ég uppgötvaði misfellur í bókhaldi Tjarnarbíós í byrjun árs,“ segir Snæbjörn.

Sindri hefur áður verið í umfjöllun fjölmiðla en hann var dreginn fyrir dómstóla vegna ummæla hans um Ingólf Þórarinsson tónlistarmann. Hann var sýknaður í héraðsdómi en sakfelldur í Landsrétti.

Mikið áfall 

Snæbjörn sagði málið mikið áfall fyrir starfsfólk, stjórn, listafólk og aðra velunnara Tjarnarbíós þegar hann lýsti sínum grunsemdum við það.

„Það fyrsta sem ég gerði var að leita til sérfræðinga til ráðgjafar, enda aldrei verið í álíka stöðu. Ég get nú upplýst að við höfum safnað töluverðu magni af gögnum um málið sem við munum afhenda lögreglu, en bæði ég og stjórn Menningarfélagsins höfum fullan hug á að kæra,“ segir Snæbjörn.

„Í þessu máli hef ég fyrst og fremst verið að hugsa um hag þeirra fjölmörgu sem starfa í Tjarnarbíó. Mörg hundruð manns á ári hverju koma í húsið til að skapa. Nánast hver einasta sýning þessa dagana er fyrir fullu húsi,“ segir Snæbjörn.

Mun leggja fram kæru 

Þá segist hann mun frekar vilja segja frá öllum þeim viðburðum sem eru í Tjarnarbíói en að standa í þessu. 

„En því miður er það þannig að þess í stað verð ég leggja fram kæru og fylgja henni eftir eins vel og ég get,“ segir Snæbjörn. 

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert