Borgin sýnt skeytingarleysi í flugöryggismálum

Tré í Öskjuhlíð eru komin í brautarstefnu á Reykjavíkurflugvelli.
Tré í Öskjuhlíð eru komin í brautarstefnu á Reykjavíkurflugvelli. mbl.is/Árni Sæberg

„Við blasir að afar illa hefur verið haldið á málinu af hálfu Reykjavíkurborgar. Hefur borgin sýnt af sér mikið skeytingarleysi þrátt fyrir að hafa fengið margar viðvaranir og frest á frest ofan til að bregðast við erindum Isavia og Samgöngustofu,“ sagði Kjartan Magnússon borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á borgarstjórnarfundi í vikunni, þar sem rætt var um flugöryggi á Reykjavíkurflugvelli að beiðni borgarfulltrúa flokksins.

Svo sem kunnugt er hafa borgaryfirvöld skirrst við að fella trjágróður í Öskjuhlíð sem heftir að- og fráflug frá annarri flugbraut vallarins og skerðir þar með flugöryggi. Hefur Samgöngustofa mælt fyrir um að flugbrautinni skuli lokað sem fyrst vegna athafnaleysis borgarinnar. Samkomulag er þó í gildi á milli Isavia og borgarinnar um að trjágróðri í Öskjuhlíð skuli haldið í skefjum í þágu flugöryggis.

Rammpólitískt mál

Sagði Kjartan að aðalatriðið væri að tryggja fullnægjandi flugöryggi við Reykjavíkurflugvöll. Deilan um umfang trjágrisjunar í Öskjuhlíð hefði meiri pólitíska þýðingu en ætla mætti við fyrstu sýn.

„Málið er rammpólitískt þar sem eitt helsta keppikefli vinstrimeirihlutans í borgarstjórn er að flæma flugvallarstarfsemi úr Reykjavík,“ sagði Kjartan.

„Með þessu skeytingarleysi vinnur meirihluti Samfylkingar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar enn og aftur gegn Reykjavíkurflugvelli. Það er pólitísk ákvörðun að bregðast ekki við versnandi aðflugsskilyrðum. Með slíku tómlæti þrengir vinstrimeirihlutinn enn frekar að flugvellinum og heldur áfram á þeirri vegferð sinni að flæma flugvallarstarfsemi úr Reykjavík,“ sagði hann.

Kjartan rifjaði upp að í júlí 2023 hefðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarráði lagt til að borgin stæði við skuldbindingar sínar um grisjun trjáa í Öskjuhlíð í þágu flugöryggis og metið yrði hversu mörg há tré þyrfti að grisja í þessu skyni. Hefði tillögunni verið vísað til umhverfis- og skipulagsráðs og þaðan til skrifstofu umhverfisgæða. Rúmum mánuði síðar vísaði svo borgarráð erindi Isavia um sama mál til umsagnar umhverfis- og skipulagsráðs, þaðan sem því var einnig vísað til skrifstofu umhverfisgæða.

Nú, 18 mánuðum síðar, hefði ekkert til málsins spurst og engin umsögn borist frá skrifstofu umhverfisgæða sem væri óviðunandi stjórnsýsla. Þó hefði komið fram að einhvers konar viðræður ættu sér stað um málið á milli fulltrúa borgarinnar, Isavia og Samgöngustofu.

„Pukur og leyndarhyggja eiga ekki við í þessu mikilvæga máli,“ sagði Kjartan.

Fréttin birtist í Morgunblaðinu 22. janúar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert