„Breytir ekki okkar viðbúnaði“

Líklegt er að til tíðinda dragi á Sundhnúkagígaröðinni í lok …
Líklegt er að til tíðinda dragi á Sundhnúkagígaröðinni í lok janúar eða byrjun febrúar. mbl.is/Hákon

„Þó svo að hægt hafi aðeins á landrisi á Sundhnúkagígaröðinni er það svo lítið að það breytir ekki okkar viðbúnaði.“

Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Hann segir að ef fram haldi sem horfir megi gera ráð fyrir því að líkur á kvikuhlaupi eða eldgosi fari að aukast um mánaðamótin.

Stefnir í enn eitt gosið

„Viðbúnaðarstigið verður hækkað í næstu eða þarnæstu viku ef þetta heldur svona áfram og við förum að gera okkur klár fyrir næsta eldgos. Miðað við hvernig þetta er að haga sér þá stefnir allt í enn eitt gosið,“ segir Benedikt.

Í síðasta eldgosi sem lauk 9. desember er metið að um 12-15 milljónir rúmmetra af kviku hafi farið undan Svartsengi og samkvæmt líkanreikningum mun rúmmál kviku undir Svartsengi ná neðri mörkum í lok janúar eða byrjun febrúar.

Sex eldgos urðu á Sundhnúkagígaröðinni á síðasta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert