Dregur í efa vilja löggjafans um bann

Svona er ætlunin að stöðvarhús Hvammsvirkjunar muni líta út í …
Svona er ætlunin að stöðvarhús Hvammsvirkjunar muni líta út í fyllingu tímans, en bygging virkjunarinnar er í nokkurri óvissu. Tölvumynd/Landsvirkjun

„Teljist óljóst orðalag lagaákvæðis og loðin ummæli í nefndaráliti nægjanleg til að víkja frá túlkun lagaákvæðis til samræmis við EES-rétt, sérstaklega þegar lagaákvæði er beinlínis ætlað að innleiða EES-reglu, verður vart önnur ályktun dregin en að vægar kröfur séu gerðar í þeim efnum í framkvæmd,“ segir Hafsteinn Dan Kristjánsson, prófessor við Háskólann í Reykjavík, í grein í tímaritinu Lögrétta Selecta, þar sem birtar eru greinar um málefni á sviði lögfræði.

Í greininni fjallar hann um dóm Héraðsdóms Reykjavíkur sem komst að þeirri niðurstöðu í síðustu viku að fella ætti úr gildi virkjunarleyfi Landsvirkjunar fyrir Hvammsvirkjun.

Deilt um heimild UST

Í dómsmálinu var tekist á um hvort Umhverfisstofnun hefði verið heimilt að leyfa breytingar á vatnshloti Þjórsár I vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Hvammsvirkjun, en héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að sú undanþáguheimild í lögum um stjórn vatnamála sem ákvörðunin byggðist á hefði ekki viðhlítandi stoð í lögum.

Byggðist niðurstaðan á þeirri forsendu að skýr og ótvíræður vilji löggjafans hefði staðið til þess að undanskilja vatnsaflsvirkjanir, og reyndar líka aðrar framkvæmdir við ár og vötn miðað við forsendur dómsins, frá undanþáguheimild a-liðar 1. mgr. 18. gr. vatnalaga. Var þar litið til breytingartillögu frá umhverfisnefnd Alþingis sem þingið samþykkti, en einnig nefndarálits umhverfisnefndar við lagafrumvarpið.

Þar með væri ekki unnt, að mati héraðsdóms, að túlka lagaákvæðið í samræmi við EES-rétt, jafnvel þótt með ákvæðinu hefði ætlunin verið að innleiða það ákvæði vatnastjórnunartilskipunarinnar sem nær til vatnsaflsvirkjana.

Ber að túlka ákvæði í samræmi við EES-rétt

„Ég dreg í efa að það hafi verið vilji löggjafans að hafa ætlað sér að undanskilja vatnsaflsvirkjanir með þessu lagaákvæði, en ef slík ályktun verður dregin af lagabreytingunni og nefndarálitinu, þá er hún ekki það skýr að hún eigi að leiða til þeirrar niðurstöðu að ekki eigi að túlka ákvæðið til samræmis við EES-rétt. Með öðrum orðum, þá ber við þessar aðstæður að túlka ákvæðið til samræmis við EES-rétt, samkvæmt lögskýringarreglum EES-laga og EES-réttar,“ segir Hafsteinn samtali við Morgunblaðið.

Því hefði sú undanþáguheimild sem Umhverfisstofnun byggði niðurstöðu sína á þegar virkjunarleyfi fyrir Hvammsvirkjun var veitt átt að standa.

Hafsteinn Dan segir að mögulega megi halda því fram að undanþáguákvæði tilskipunar EES, sem innleitt var í lög um vatnamál og lá til grundvallar niðurstöðu dóms Héraðsdóms, feli í sér einhvers konar lágmarkssamræmingu, þannig að löggjafinn megi ganga lengra, þ.e.a.s. með svokallaðri „gullhúðun“.

Þegar þannig hátti til reyni ekki á túlkun til samræmis við EES-rétt, nema upp að því lágmarki. En jafnvel þótt því yrði haldið fram og lögskýringarreglur EES-laga og EES-réttar yrðu settar til hliðar, þá kveðst Hafsteinn Dan áfram telja að efast megi um að vilji löggjafans hafi staðið til þessa, og jafnvel þótt slík ályktun yrði dregin um vilja löggjafans, þá væri hún ekki nægilega skýr og ótvíræð. Þannig að niðurstaðan ætti engu að síður að vera sú sama þegar löskýringasjónarmiðin væru metin heildstætt í samhengi sínu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert