Töluverð samskipti voru á milli starfsmanna Reykjavíkurborgar og þeirra sem stóðu að uppbyggingu vöruhússins við Álfabakka í aðdraganda framkvæmdarinnar. Samskiptin snérust að mestu leyti um hvort Hagar, sem koma til með að leigja húsið undir starfsemi sína, fengju næg bílastæði fyrir starfsemi sína fyrir utan lóðina.
Þetta kemur fram í umfjöllun í gögnum sem fréttastofa Ríkisútvarpsins hefur undir höndum en greint var frá í Speglinum í kvöld.
Í umfjöllun á vef Rúv um málið segir að Halldór Þorkelsson hjá Arcus, sem hefur verið Álfabakka 2 ehf. innan handar í samskiptum við Reykjavíkurborg, hafi verið í stöðugum samskiptum við Óla Örn Eiríksson, sem var á þeim tíma yfir atvinnu- og borgarþróunarteymi Reykjavíkurborgar en er nýlega ráðinn aðstoðarmaður atvinnuvegaráðherra, í aðdraganda og í gegnum framkvæmdirnar.
Halldór upplýsti Óla um í nóvember árið 2023 að áform um höfuðstöðvar Haga væru í hættu þar sem óvissa væri um fjölda bílastæða. Hagar gerðu ráð fyrir að í kringum 200 bílastæði yrðu á lóðinni en borgin gerði ráð fyrir 51-100 bílastæðum.
Skipulagsfulltrúi borgarinnar fékk svipaðan tölvupóst í desember sama ár þar sem Halldór upplýsir hann um að Hagar áformi um að rifta leigusamningi sínum vegna fjölda bílastæða.
Hagar sendu Álfabakka 2 ehf. bréf í lok janúar þar sem segir að áætlanir fyrirtækisins séu í uppnámi vegna bílastæðafjölda sem Reykjavíkurborg ákvarði og segir fyrirtækið þann fjölda ekki nægja starfseminni.
Álfabakki 2 ehf. fékk frest til lok febrúar til að leysa úr málinu.
Einar Þorsteinsson borgarstjóri virðist hafa verið upplýstur um stöðuna sem var komin upp um miðjan febrúar en einn eigandi Álfabakka 2 ehf., Brynjólfur Þorkelsson, sendi borgarstjóra tölvupóst þar sem hann er sagður hafa átt símtal við forstjóra Haga.
„Þú ert búinn að segja við Finn forstjóra Haga að þetta náist í gegn en bara í síma, ekki skriflega eins og hann bað um,“ skrifar Brynjólfur.
Næsta dag þakkar Brynjólfur Einari fyrir að hafa sinnt málinu og kveðst hann bjartsýnn um að borgin og félagið leggi allt undir og komi með afdráttarlausa yfirlýsingu um að þetta sé komið.
Hann ítrekar beiðnina viku síðar annars rifti Hagar leigusamningnum.
Í lok febrúarmánaðar virðist málið vera leyst og fer Finnur Oddson, forstjóri Haga, að ræða myndatökumóment með borgarstjóra - en aldrei varð neitt úr því mómenti því í mars fer verkefnastjóri hjá skipulagsfulltrúa borgarinnar að hafa áhyggjur af notkun, útliti og hönnun byggingarinnar.
„Við erum hugsi yfir útfærslunni sem lögð er til á lóðinni,“ skrifaði verkefnastjórinn í tölvupósti til Halldórs. Svaraði Halldór skipulagsfulltrúanum og kvaðst vera orðlaus yfir honum. Hann taldi víst að útlit og hönnun byggingarinnar hefði löngu legið fyrir. Segir hann óskiljanlegt að hefja samtal um notkun byggingarinnar á þessum tímapunkti þar sem þegar hafi verið rætt um áformaða notkun byggingarinnar með viðeigandi fulltrúum borgarinnar.
Nokkru síðar er Halldór boðaður á fund borgarstjóra, formanns umhverfis- og skipulagsráðs og annarra þar sem tilgangur hans er að leysa úr þeim flækjum sem væru til staðar.
Í umfjöllun Rúv segir að Halldóri sé ekki kunnugt um hvaða flækjur yrðu til umræðu á fundinum og segir þar jafnframt að litlar upplýsingar séu um fundinn í gögnunum.