Húsnæði Laugargerðisskóla í Eyja- og Miklaholtshreppi á Snæfellsnesi er til sölu. Skólanum var lokað árið 2023 en þá voru nemendur skólans fimmtán talsins.
Eyja- og Miklaholtshreppur er eitt fámennasta sveitarfélag landsins en íbúar þar eru samkvæmt tölum Hagstofunnar 123. Laugargerðisskóla var lokað árið 2023 og var hann einn af fámennari grunnskólum landsins.
Mikil óánægja var meðal foreldra barna í Laugargerðisskóla þegar skólanum var lokað árið 2023. Viðræður áttu sér meðal annars stað um það að foreldrar myndu taka yfir rekstur skólans.
„Ég gæti talað í marga klukkutíma og sagt sögur af þeim viðræðum. Við fórum í viðræður við foreldra en foreldrar sýndu hvorki fram á það að þeir gætu leyst þetta fjárhagslega né faglega og við slitum því viðræðunum,“ segir Sigurbjörg Ottesen, oddviti hreppsins.
Börn í sveitarfélaginu ganga í dag í skóla í Stykkishólmi en að sögn Sigurbjargar geta foreldrar sótt um undanþágu og farið með börnin sín í skóla annars staðar.
Sigurbjörg segir að þrátt fyrir að ákveðin óánægja hafi verið með lokun skólans þá hafi ákvörðunin haft sína kosti.
„Það er enn ákveðin undiralda af óánægju meðal foreldra en á móti kemur að fólk hefur flutt aftur heim en margir fluttu í burtu vegna þess að Laugargerðisskóli var of lítill og foreldrar vildu koma börnum sínum í stærri skóla. Börnum á grunnskólaaldri hefur því fjölgað í sveitarfélaginu.“
Eins og áður segir eru íbúar samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunna 123 en við lokun skólans voru íbúar sveitarfélagsins færri en hundrað.
Að sögn Sigurbjargar er húsnæðið nú í verðmatsferli, samkvæmt fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir því að fá 220 milljónir króna fyrir sölu skólabyggingarinnar.
Stefnan er sett á það að peningarnir fari í viðhald á félagsheimili hreppsins og einnig er stefnt á það að fara í orkuskipti fyrir íbúa. Sigurbjörg segir að orkuskiptin séu í ferli en að hún sjái fyrir sér að um varmadæluverkefni verði að ræða.