Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hefur fellt úr gildi ákvörðun skipulagsfulltrúa um að breyta JL-húsinu við Hringbraut 121 í búsetuúrræði fyrir hælisleitendur.
Skipulagsfulltrúi hafði samþykkt tillögu um að breyta húsnæðinu í búsetuúrræði í nóvember í fyrra en nágranni kærði niðurstöðuna á þeirri forsendu að ekki væri heimild fyrir sértæku búsetuúrræði á lóðinni. Einungis væri tilgreint að heimilt væri að hafa í húsinu matvöruverslun og þjónustu.
Málsrök borgarinnar voru þau að samþykki á breytingu á skilmálum deiliskipulags fyrir lóðina hafi hvorki í för með sér breytta notkun hússins né umfangsmeiri starfsemi en almennt er heimil á verslunar- og þjónustusvæðum.
Þýddi þessi breyting að Vinnumálastofnun var heimilt að nýta húsið undir úrræðið. Þangað voru þegar fluttar um 60 konur fluttar inn á fjórðu hæð hússins. Í heild var heimild fyrir um 400 einstaklinga í húsinu en fram kemur að ekki hafi staðið til að fullnýta rýmin.
Engin grenndarkynning fór fram áður en búsetuúrræðið var tekið í notkun og kærði húsfélag við Grandaveg 42 ákvörðunina en húsfélagið á samliggjandi lóð með JL-húsinu.
Borgin benti hins vegar á að í húsinu hefði verið rekið hótel fyrir um 240 manns. Þá hafði Myndlistarskólinn í Reykjavík haft aðstöðu fyrir 240-260 manns í húsinu á liðnum árum.
Hins vegar myndi áætlaður fjöldi hælisleitenda sem myndi gista í húsinu ekki fara yfir 326 manns. Taldi borgin að ekki væri eðlismunur á gistingu þeirra í húsinu og þegar ferðamenn gista á farfuglaheimili eða hóteli.
Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar var hins vegar sú að ekki væri hægt að leggja að jöfnu búsetuúrræði og þá þjónustu sem áður hafði verið hýst í húsinu.
Húsið sé skilgreint sem hverfiskjarni sem ætlað er að þjóna nærumhverfinu.
Í ljósi þessa er felld úr gildi ákvörðun skipulagsfulltrúa Reykjavíkur frá 28. nóvember í fyrra um að samþykkja breytingar á skilmálum deiliskipulags.