Opnað hefur verið fyrir tilboð í lóðir í öðrum áfanga í Vatnsendahvarfi í Kópavori. Í öðrum áfanga verður úthlutað lóðum fyrir einbýlishús, parhús, klasahús og fjölbýli.
Í tilkynningu frá Kóðavogsbæ kemur fram að hægt sé að skila inn tilboðum í fjórar vikur, frá 23.janúar til 20.febrúar í gegnum útboðsvef Kópavogsbæjar, Tendsign.is.
„Við erum mjög spennt að fá nýtt hverfi í Kópavoginn og fundum það í fyrsta áfanga að það er mikill áhugi, enda góð staðsetning á frábærum útsýnisstað í nálægð við mikla náttúrufegurð. Hverfið verður ekki þétt byggt og gert ráð fyrir fallegum grænum svæðum sem flæðir vel í gegnum hverfið,“ er haft eftir Ásdísi Kristjánsdóttur, bæjarstjóra Kópavogs, í tilkynningunni.
Hún segir að lög verði áhersla fjölbreytta byggð í Vatnsendahvarfi með góðum samgöngutengingum fyrir alla ferðamáta. Þá muni íbúar njóta góðs af þeirri þjónustu sem fyrir er í nærumhverfinu auk þess sem reistur verður leikskóli og grunnskóli fyrir 1. til 4. bekk í hverfinu.
Í Vatnsendahvarfi verða 500 íbúðir í fjölbýli og sérbýli og fellur byggðin vel að nágrenninu. Lögð er áhersla á sjálfbæra og umhverfisvæna byggð og góðar samgöngutengingar fyrir akandi, hjólandi og gangandi vegfarendur. Stefnt er að því að lóðir í öðrum áfanga verði byggingarhæfar í september 2025.
Haldinn verður kynningarfundur 30.janúar fyrir þau sem þurfa nánari upplýsingar og aðstoð um Tendsign. Fundurinn verður haldinn í Bókasafni Kópavogs og stendur yfir frá 16.00 til 18.30