Rýna í rýmingar á morgun

Rýmingum var aflétt á Seyðisfirði og í Neskaupstað á þriðjudag. …
Rýmingum var aflétt á Seyðisfirði og í Neskaupstað á þriðjudag. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Allt er með góðu móti. Nú vonum við bara að veðrið hegði sér og við þurfum ekkert að standa í rýmingum á næstunni en erum þó tilbúin ef þarf,“ segir Jón Björn Hákonarson, verkefnastjóri almannavarna á Austurlandi.

Rýmingum vegna snjóflóðahættu í Neskaupstað og á Seyðisfirði var aflétt á þriðjudag og verða þær rýndar á morgun með viðbragðsaðilum.

Að sögn Jóns Björns hefur verið unnið að snjóruðningi síðan rýmingum var aflétt og segir hann allt ganga nú með ágætum á Austurlandi.

Magnið kemur á óvart

„Það kemur manni á óvart þegar maður sér haugana hérna eftir snjóruðninginn hvað þetta hefur verið mikið magn sem hefur fallið. Maður auðvitað sér það þegar maður horfir út, en maður áttar sig betur á því þegar það er búið að ryðja allar götur.“

Jón Björn segir nú allt komið í samt lag. Veðurstofan hafi aflýst óvissustigi seinnipart þriðjudags og nefnir að nú rigni örlítið á Austurlandi sem hjálpi snjónum að setjast.

„Þannig við erum bara í góðum gír.“

Jón Björn Hákonarson.
Jón Björn Hákonarson. mbl.is/Sigurður Bogi

Fara yfir aðgerðina í heild

Segir Jón Björn að aðgerðin verði svo í heild sinni rýnd á morgun með viðbragðsaðilum og fleirum.

„Það er auðvitað líka mikilvægur hluti af svona aðgerðum, að maður rýni þær og sjái þá hvort það sé eitthvað sem við hefðum getað gert betur eða öðruvísi og svo framvegis, og við ætlum að fara í slíkt rýni á morgun,“ segir Jón Björn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert