Segir málinu laumað í gegnum kerfið

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðismanna í Reykjavík, segir að fulltrúum minnihlutans hafi verið tjáð með óformlegum hætti frá skipulagssviði að ákvörðun um búsetuúrræði í JL-húsinu og breytingar á húsinu hafi ekki fengið neina meðferð innan borgarinnar. Einnig hafi formlegum spurningum um málið aldrei verið svarað.

Hins vegar hafi komið í ljós í dag að málið fór í gegnum borgarkerfið og úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála tók málið til umfjöllunar. Þar kemur fram að málið fór bæði í gegnum byggingarfulltrúa og fékk samþykki skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar.

Niðurstaða úrskurðarnefndar var sú að ákvörðun skipulagsfulltrúa um breytingar á JL-húsinu undir hælisleitendur væri óheimil. 

Sagt að borgin væri ekki með málið 

„Ég byrjaði strax að grennslast fyrir um þetta mál í október, bæði með samskiptum við umhverfis- og skipulagssvið og með fyrirspurnum á fundum ráðsins. Nú eru tæpir fjórir mánuðir liðnir og enn hef ég ekki fengið svör. Einu óformlegu svörin sem ég hef fengið eru þau að málið hafi aldrei komið fyrir borgina og að engar ákvarðanir hafi verið teknar á þeim vettvangi. Nú er hins vegar búið að koma í ljós að málið fór bæði í gegnum byggingarfulltrúa og fékk samþykki skipulagsfulltrúa,“ segir Hildur.

Upplifið þið þá einhvers konar leyndarhyggju í tengslum við málið?

„Ég skal ekki segja. Þetta er bara enn einn áfellisdómurinn yfir stjórnsýslu borgarinnar. Við í minnihlutanum upplifum það gjarnan að þegar við erum að reyna að sinna eftirlitsskyldu okkar og spyrjast fyrir, þá fáum við ekki svör eða röng svör og það er mjög vont,“ segir Hildur.

Hætt við ghetto-myndun

Sjálf segist hún hafa verið þeirrar skoðunar að það sé ekki heppilegt að svo mörgum hælisleitendum sé beint á sama stað, í JL-húsið, þar sem áætlanir gerðu ráð fyrir vel á fjórða hundrað hælisleitenda. Þegar höfðu 60 konur flutt inn í búsetuúrræðið.

„Öll sveitarfélög landsins hafa sennilega þá yfirlýstu stefnu að það sé æskilegt að tryggja sterka félagslega blöndu inni í öllum hverfum og að koma ekki fólki í erfiðri félagslegri stöðu fyrir á sama blettinum,“ segir Hildur.

Heppilegra sé að hafa slík úrræði dreifðari en þessi niðurstaða sé á skjön við þá stefnu.

„Því það er alltaf hætta á einhvers konar ghetto-myndun við svona aðstæður,“ segir Hildur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert