Skjálftavirknin aukist verulega

Virkni í Ljósufjallakerfinu hefur aukist mikið á síðustu mánuðum.
Virkni í Ljósufjallakerfinu hefur aukist mikið á síðustu mánuðum. mbl.is/Árni Sæberg

Nokkur skjálftavirkni hefur verið við Grjótárvatn á Mýrunum í morgun. Frá því klukkan 8 í morgun hafa mælst sjö skjálftar á svæðinu, sá stærsti 2 að stærð.

Nærri 200 skjálftar hafa mælst í Ljósufjallakerfinu frá áramótum og eru það margfalt fleiri skjálftar en mældust á ársgrundvelli í eldstöðvarkerfinu fyrir árið 2023.

Upptök skjálftanna eru jafnan á milli tveggja vatna: Grjótárvatns og Háleiksvatns.

Gos hafa yfirleitt langan aðdraganda

„Það hafa komið reglulegar hrinur og virknin hefur aukist verulega eftir því sem liðið hefur á veturinn,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri aflögunarmælinga á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Hann segir áhugavert að fylgjast með þróuninni. Einn möguleikinn sé sá að þessari atburðarás ljúki með eldgosi. Líklegast þykir að um kvikuhreyfingu sé að ræða.

„Það er samt mjög sjaldgæft að eldstöðvar sem ekki hafa hrært á sér í hundruð ára taki upp á því að gjósa einn, tveir og þrír,“ segir hann.

„Gosin hafa yfirleitt langan aðdraganda en það þýðir ekki að eitthvað óvænt geti gerst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert