Skoða breytingu á hraðahindrun

Skoðað er hvernig bregðast eigi við titringi í Smiðju.
Skoðað er hvernig bregðast eigi við titringi í Smiðju. mbl.is/Árni Sæberg

„Niðurstaða fundarins var sú að Reykjavíkurborg ætlar að athuga hvort hægt sé að breyta þessu fyrirkomulagi á hraðahindruninni sem er væntanlega uppsprettan að þessari leiðni sem veldur titringi,“ segir Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri Alþingis í samtali við Morgunblaðið.

Verið sé að skoða málið með það fyrir augum að breyta hraðahindruninni eða fjarlægja hana. Ragna segir að engin tímamörk varðandi lagfæringar hafi verið tiltekin í viðræðunum við borgina. „En við vonumst til þess að þetta verði lagað sem fyrst,“ segir hún.

Í síðustu viku var haldinn fundur fulltrúa Alþingis og Reykjavíkurborgar þar sem til umræðu var hvernig bregðast mætti við titringi í Smiðju, skrifstofubyggingu Alþingis við Vonarstræti. Titrings hefur orðið vart á efstu hæð byggingarinnar þegar strætisvagnar og önnur þung farartæki aka yfir hraðahindrun í Vonarstræti en sérfræðingar sem kallaðir voru til af hálfu Alþingis komust að þeirri niðurstöðu að titringinn mætti rekja til umræddrar hraðahindrunar.

Titrings hefur einnig orðið vart í fundarsal Ráðhússins þegar strætisvagnar aka yfir téða hraðahindrun, en samkvæmt heimildum blaðsins hefur fólk einnig fundið fyrir titringi í safnaðarheimili Dómkirkjunnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert