Vegir gætu orðið þungfærir eða ófærir

Viðvaranirnar eru í gildi fram á nótt.
Viðvaranirnar eru í gildi fram á nótt. Skjáskot/Veðurstofa Íslands

Gular veðurviðvaranir eru í gildi á Suður- og Suðausturlandi vegna mikillar snjókomu. Viðvaranirnar eru í gildi fram á nótt. 

Á vef Veðurstofu Íslands segir að búist sé við talsverðri eða mikilli snjókomu með hægum vindi á Suðurlandi. Uppsöfnuð snjókoma á viðvörunartímabilinu gæti verið á bilinu 15 til 30 sentímetrar að dýpi og er spáð mestri úrkomu í uppsveitum og austan til á svæðinu. 

Á Suðausturlandi er búist við að talsverð eða mikil snjókoma falli vestan til á svæðinu í frekar hægum vindi. Uppsöfnuð snjókoma á þeim hluta svæðisins gæti verið á bilinu 20 til 35 sentímetra dýpt. 

Á vef Vegagerðarinnar segir að búast megi við því að vegir á sunnanverðu landinu verði þungfærir og jafnvel ófærir eftir að þjónustu lýkur í kvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert