Áréttað: Ekki sakaður um að villa á sér heimildir

Hjúkrunarheimilið Berg í Bolungarvík.
Hjúkrunarheimilið Berg í Bolungarvík.

Leikskólastjórinn sem fjallað var um á forsíðu Morgunblaðsins í dag er ekki bakvörðurinn sem sakaður var um að hafa villt á sér heimildir á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík í kórónuveirufaraldrinum.

Í umfjöllun Morgunblaðsins í morgun kemur fram að leik­skóla­stjór­inn hafi komist í frétt­ir árið 2020 þegar hann starfaði sem bakvörður á hjúkr­un­ar­heim­il­inu Bergi í Bol­ung­ar­vík.

Umfjöllunin var birt á mbl.is þar sem fyrir mistök var hlekkjað í frétt um annan bakvörð sem starfaði á sama hjúkrunarheimili og var sakaður um að hafa villt á sér heimildir og falsað skjöl um menntun og starfsleyfi sem sjúkraliði. Beðist er velvirðingar á því.

Ákvörðun landlæknis ekki tekin á réttum lagagrundvelli

Þær fréttir um leikskólastjórann sem vísað var til í Morgunblaðinu í dag varða aftur á móti synjun embættis landlæknis á leyfisbréfi sem leikskólastjórinn sótti um þegar hann starfaði á hjúkrunarheimilinu í kórónuveirufaraldrinum.

Leikskólastjórinn útskrifaðist sem sjúkraliði 2007 en landlæknir synjaði honum um starfs­leyfi á grundvelli þess að hann hefði ekki viðhaldið kunn­áttu sinni frá út­skrift með því að vinna sem sjúkra­liði frá því nám­inu lauk.

Heilbrigðisráðuneytið komst síðar að því að ákvörðun landlæknis hefði ekki verið tekin á réttum lagagrundvelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert