Síðasta sólarhring hafa mælst rúmlega tíu jarðskjálftar rétt austan við Vestri Hvalhnúk, sá stærsti 3,0 að stærð, sem mældist 5,5 kílómetrum suðsuðsuðvestur af Bláfjallaskála rétt eftir klukkan 6 í morgun.
Veðurstofunni hafa ekki borist neinar tilkynningar frá fólki sem fann fyrir skjálftanum að sögn Böðvars Sveinssonar, náttúruvársérfræðings á Veðurstofu Íslands, en annar skjálfti af stærðinni 2,4 mældist skömmu síðar á sömu slóðum.
Böðvar segir að síðustu tvo sólarhringa hafi mælst um 30 skjálftar á þessu svæði. Hann segir þetta þekkt skjálftasvæði en tæplega 400 skjálftar hafa mælst á svæðinu á undanförnum fimm árum.
Hann segir að í flestum tilvikum hafi verið um litla skjálfta að ræða en skjálftinn í morgun hafi verið með þeim stærri sem hafi mælst.