Um síðustu helgi lögðu kennarar fram tillögu um að gerður yrði styttri kjarasamningur en áður hefur verið rætt um, mögulega til 18 mánaða eða allt að þriggja ára. Þannig væri hægt að taka styttri skref í einu varðandi launaþáttinn og gefa sér meiri tíma til að útkljá mál sem hafa verið bitbein síðustu mánuði.
Þeirri tillögu hafa samninganefndir ríkis og sveitarfélaga hins vegar ekki svarað, að sögn formanns Kennarasambandsins.
„Það sem við lögðum til um síðustu helgi var að við myndum einbeita okkur að styttra skrefi þar sem við gætum sameinast um aðgerðir til 18 mánaða eða tveggja, þriggja ára, þar sem við kæmum til móts við þær launakröfur sem við teljum að við getum hiklaust varið á þessum árum, sem skref inn í lengra samkomulag. En um leið var rætt um alls konar þætti sem hafa verið uppi á borðum í þessum samningum og áður og gefið okkur þannig tíma til að geta unnið saman að þessu í friði,“ segir Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands (KÍ), í samtali við mbl.is.
Samninganefndir allra aðildarfélaga KÍ funduðu í dag um stöðuna í kjaraviðræðunum, en á miðvikudag reyndu deiluaðilar til þrautar að finna áframhaldandi grundvöll til viðræðna, án árangurs. Ríkissáttasemjari taldi því ekki ástæðu til að boða til frekari funda að svo stöddu.
Aðildarfélög KÍ sendu svo frá sér yfirlýsingu síðdegis í dag um að krafa kennara um samkomulag frá árinu 2016, um jöfnun launa á milli markaða, stæði enn óhögguð.
„Það verður að vera alvöru vilji til að koma til móts við raddir kennara um jöfnun launa, þá getum við talað um alls konar aðra þætti, en það er grundvallartónninn í okkar markmiðum og á hann verður að hlusta,“ segir Magnús.
Kennarar kalla eftir því að stjórnvöld komi að málinu og höggvi á hnútinn í deilunni. Hún verði ekki leyst nema samtalið nái út fyrir samningaborðið.
„Við erum alveg klár á því að ef þetta mál á að klárast þá verður nýkjörin ríkisstjórn að koma inn í málið. Við verðum að taka samtal um skólakerfið allt og kennarana. Við töldum okkur hafa lagt fram þessar útlínur sem væri hægt að teikna upp í styttra samkomulag sem gæti komið til móts við alla aðila og komið í veg fyrir aðgerðir.“
Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði í samtali við mbl.is í gær að viðhorfsbreytingu þyrfti hjá kennurum til að væri að setjast aftur að samningaborðinu.
Sveitarfélögin hefðu teygt sig eins langt og þau gátu til að koma til móts við kennara, en þeir yrðu að slá af launakröfum sínum ættu samningar að nást.
Þá sagði hún að alls konar leiðir hefðu verið settar fram til að hækka laun kennara.
Magnús segir kennara ekki tilbúna til að breyta fyrirkomulagi vinnutíma, sem er ein af þeim leiðum sem settar hafa verið fram af hálfu sveitarfélaganna.
„Við teljum leiðina núna alls ekki þá að farið verið að hræra í vinnutímaköflum kennara. Við viljum að núvirði okkar sé metið og því verði ekki blandað saman við kjarasamninginn núna. En við erum á þeim stað að við þurfum að taka áfram samtöl um alls konar þætti sem þau og við leggjum áherslu á en það getum við ekki gert nema við höfum vissu fyrir því, og þar þurfa stjórnvöld mögulega að koma inn í, að það verði fjárfest í skólastarfi og kennurum.”
Magnús segir erfitt að svara þeim fullyrðingum Ingu að launakröfur kennara séu of háar. Hún hafi vísað til kröfu um tugprósenta hækkanir sem hann segir að sé ekki raunin.
Hann bendir á að þær tölur sem vísað hafi verið til séu tölur Hagstofunnar sem segi að um 49 prósenta munur sé á milli sérfræðinga í fræðslugeiranum og meðaltals á almennum markaði.
„Þar vitum við að önnur kjör eiga eftir að koma inn í og þar vitum við að staða aðildarfélaganna er ólík. En til þess að við getum farið eitthvað lengra þá þurfum við að finna okkur mælikvarða, hlutlæg viðmið og klára umræðuna um önnur kjör.“
Hann sér fyrir sér að eftir 18 mánuði væri hægt að sjá það sem vantaði upp. Þá væri búið að finna hlutlæg viðmið og verkefnið væri á öðrum stað.
„En til þess að það verði og kennarar verði tilbúnir í það þá verðum við sjá alvöru sannfæringu fyrir því hjá ríki og sveitarfélögum að þau vilji í alvöru koma til móts við 4.000 manna skort á kennurum og fjárfesta í kerfinu okkar á þann hátt að kennarar sjái að það sé verið að taka markvisst skref í átt að þessari jöfnun.“
Þá verði hægt að hægt að tala um og setja í alvöru farveg þau atriði sem hafi verið lengi í umræðunni til að einfalda leiðina inn í lokamarkmiðið sem geti tekið fjögur til sex ár í viðbót.
„Á sunnudaginn vorum við ekki að tala um tugi prósenta í þessu stutta skrefi. Við vorum að tala um miklu lægri tölur. Við vildum fá samtal um það sem í rauninni við þyrftum að ná fram, og þar mun skipta máli hvort við erum að tala um tvö eða fjögur ár með áföngum á leiðinni. En til að við getum sagt nákvæmlega hvað það er þá þurfum við að fá samtal. Hvort það væri að menn vildu ekki styttri samning eða hvort menn vildu fara inn með alls konar samninga sem við vitum að verða aldrei samþykktir, sem snúa að starfinu okkar, það verða samninganefndirnar að svara fyrir.“
En hvað ber mikið í milli?
„Það ber í milli að við fengum ekki formlegt svar við okkar erindi, okkur var ekki vísað frá, því var ekki svarað, hvorki lið fyrir lið eða í einu lagi,“ segir Magnús.
„Þetta má víst ekki heita tilboð því við gátum ekki sett fingur á nákvæmlega hvaða prósentutölur við erum að tala um, því við ætlum að reyna að vinna það í samtali. En þessar útlínur sem við lögðum upp með, þetta stutta skref núna til að geta verið samtaka í því að taka stóra skrefið til enda með sveitarfélögunum og nýrri ríkisstjórn, það varð alveg ljóst sambandsmegin á miðvikudaginn að þeim fannst það ekki umræðugrundvöllur.“