Vilja reka leikskólastjóra

Mikill styr stendur um leikskólastjóra Maríuborgar og kvarta bæði foreldrar …
Mikill styr stendur um leikskólastjóra Maríuborgar og kvarta bæði foreldrar og starfsfólk yfir honum. mbl.is/Karítas

Foreldrar 60 barna sem ýmist eru eða hafa verið á leikskólanum Maríuborg í Grafarholti í Reykjavík lýsa yfir vantrausti á leikskólastjórann og krefjast þess að hann segi starfi sínu lausu, ellegar verði honum vikið úr starfi eða settur í leyfi tafarlaust á meðan mál hans er rannsakað.

Svo segir í bréfi sem foreldrarnir sendu borgarráði Reykjavíkur sl. þriðjudag. Áður höfðu foreldrarnir sent sama erindi til formanns skóla- og frístundaráðs borgarinnar, en voru ekki virtir svars. Því var brugðið á það ráð að senda erindið til borgarráðs.

Halda má því til haga að formaður skóla- og frístundaráðs er borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, en umræddur leikskólastjóri var á framboðslista flokksins í borgarstjórnarkosningum 2018. Leikskólastjórinn komst í fréttir árið 2020 þegar hann starfaði sem bakvörður á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík.

Áréttað:

Leikskólastjórinn er ekki bakvörðurinn í Bolungarvík sem villti á sér heimildir og var handtekinn fyrir að hafa framvísað fölsuðum gögnum.

Leikskólastjórinn starfaði sem sjúkraliði á hjúkrunarheimilinu en landlæknir synjaði honum um leyfisbréf sem sjúkraliði þrátt fyrir að hann væri menntaður sem slíkur. Var synjunin á grundvelli þess að hann hefði ekki viðhaldið kunn­áttu sinni frá út­skrift með því að vinna sem sjúkra­liði frá því nám­inu lauk.

Heilbrigðisráðuneytið komst síðar að þeirri niður­stöðu að sú ákvörðun hafi ekki verið tek­in á rétt­um laga­grund­velli.

Starfsmenn í veikindaleyfi

Segir í bréfinu, sem Morgunblaðið hefur undir höndum, að áhyggjur foreldranna snúi að öryggi og velferð barnanna, en atvik sem skrásett hafa verið sýni fram á ýmis brot á lögum og reglum sem gilda um leikskólastarf, barnavernd og persónuvernd. Er þar vísað til laga um leikskóla þar sem kveðið er á um að leikskólar skuli tryggja öryggi og velferð barna, en einnig til laga um persónuvernd sem og laga um málefni fatlaðs fólks þar sem mælt er fyrir um rétt barna með sérþarfir til stuðnings.

Í bréfinu er fullyrt að óásættanleg hegðun leikskólastjórans hafi leitt til þess að 17 starfsmenn hið minnsta og margir þeirra með mikla starfsreynslu hafi hætt störfum á Maríuborg vegna óviðunandi framkomu hans. Að auki séu sjö starfsmenn Maríuborgar í langtímaveikindaleyfi.

Fram kemur að faglegt starf í leikskólanum hafi dregist verulega saman og undirbúningur barna fyrir grunnskólanám sé afar takmarkaður. Fullyrt er að kvartanir hafi farið að berast Reykjavíkurborg vegna framkomu leikskólastjórans strax á reynslutíma hans haustið 2023. Hann var eigi að síður fastráðinn.

Umfjöllunina í heild sinni má nálgast í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert