Allt landeldi í uppnámi

„Það eru miklu fleiri framkvæmdir sem lenda í uppnámi við þennan úrskurð […] það eru öll verkefni þar sem menn eru að hrófla við vatni og það eru bara öll verkefni sem snúa að landeldi, brúargerð, allar vatnsaflsvirkjanir, allar jarðvarmavirkjanir sem verið er að vinna að.“

Þannig lýsir Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar þeirri stöðu sem upp er komin í kjölfar þess að héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að ekkert stjórnvald hefði heimild til þess að veita leyfi til breytinga á svokölluðum vatnshlotum en undir skilgreiningu þess fellur bæði yfirborðs- og grunnvatn.

Hörður er gestur Spursmála en viðtalið er aðgengilegt á mbl.is. Þar segir hann meðal annars að þarna sé um að ræða landeldisverkefni upp á tugi milljarða sem nú séu í uppnámi, ekki síst fjármögnunarferli þeirra. 

Vongóður um að staðan skýrist

Þrátt fyrir þetta er hann vongóður um að staðan muni skýrast, annaðhvort með því að æðra dómstig snúi niðurstöðu héraðsdóms eða að löggjafinn eyði óvissunni með nýrri löggjöf.

Sú löggjöf sem héraðsdómur byggir dóm sinn á er frá árinu 2011 en nú er deilt um hvort vilji löggjafans hafi verið sá að girða fyrir öll ný verkefni þar sem mannshöndin leiðir til breytinga á vatnshlotum.

Segir Hörður augljóst að það hafi aldrei verið ætlunin, enda hafi Alþingi síðar sýnt raunverulegan vilja sinn í verki, meðal annars þegar hin umrædda Hvammsvirkjun var flutt úr biðflokki rammaáætlunar í nýtingarflokk árið 2015.

Líkt og Morgunblaðið hefur fjallað ítrekað um á síðustu misserum stendur fyrir dyrum gríðarleg fjárfesting hjá landeldisfyrirtækjum vítt og breitt um landið og er hún þegar allt er talið talin í hundruðum milljarða.

Þrjú fyrirtæki stefna á stórfellda uppbyggingu nærri Þorlákshöfn, Samherji skammt frá Reykjanesvirkjun og nýjustu fréttir herma að fyrirtækið Aurora fiskeldi stefni einnig á mikil umsvif á Grundartanga í Hvalfirði.

Landeldisstöð Samherja Fiskeldis í Öxarfirði.
Landeldisstöð Samherja Fiskeldis í Öxarfirði. mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert