Morgunblaðið reyndi að spyrja ráðherra um stöðu styrkjamálsins eftir ríkisstjórnarfund í gær, þar sem Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra var einn til svara, en aðrir ráðherrar vísuðu allir á hann.
„Verklagi ráðuneytisins hefur verið breytt og einungis þeir sem uppfylla skilyrði laganna fá greitt í samræmi við þau,“ segir fjármálaráðherra.
Verður Flokkur fólksins krafinn um endurgreiðslu vegna þeirra styrkja sem hann hefur fengið greidda þrátt fyrir að uppfylla ekki skilyrði laga?
„Allt það mál er í vinnslu. Þetta snýr auðvitað að fleiri aðilum sem greiða þessa styrki út, þannig að það mál er í vinnslu í ráðuneytinu.“
Hefur það áhrif að formaður Flokks fólksins segist hafa vitað að flokkurinn uppfyllti ekki skilyrði?
„Eins og ég segi, málið er bara í heild sinni í skoðun. Það verður bara að koma í ljós.“
Hvernig getur það gerst, að styrkir séu greiddir út ár eftir ár til flokka sem ekki uppfylla skilyrði?
„Það er von að þú spyrjir, og þess vegna þarf auðvitað að yfirfara hvernig það gat gerst, sérstaklega þegar það er misræmi milli ólíkra aðila um það hvernig framkvæmdin er, þannig að þetta þarf ég að yfirfara,“ segir Daði Már að lokum og hljóp á næsta fund.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.