Mjálmar, kötturinn hennar Ellenar Kristjánsdóttur, er sestur í fangið á blaðamanni um leið og við setjumst við eldhúsborðið. Ellen ber á borð te, smákökur og fulla skál af lakkrísbitum fyrir gestinn, sem seilist fulloft í nammið. Á meðan Mjálmar malar hástöfum spjöllum við Ellen um lífið og tilveruna. Hún segir frá lífi sínu af hlýju og einlægni og dregur ekkert undan.
Ný heimildarmynd um Ellen, Ég verð aldrei önnur en ég er, verður frumsýnd á RÚV í kvöld, sunnudag. Þar er fylgst með Ellen fara í ferðalag á æskuslóðir í Bandaríkjunum og rifja upp það liðna. Ferðin er eins konar vegferð aftur í tímann og vekur upp gamlar minningar og alls konar tilfinningar. Við ræðum myndina en spjallið leiðir okkur um víðan völl. Ellen ræðir um sjálfsvíg og vill að umræðan opnist enn frekar, enda mikilvægt að grípa veika einstaklinga áður en þeir taka til slíkra örþrifaráða. Sjálf þekkir hún vel sorgina og skömmina sem fylgir sjálfsvígum, en faðir hennar fyrirfór sér þegar hún var unglingur.
Enn einu sinni standa Ellen og fjölskyldan frammi fyrir sorginni því nýlega lést náinn vinur, raftónlistarmaðurinn Árni Grétar Jóhannesson, þekktur undir nafninu Futuregrapher. Árni, sem var barnsfaðir dóttur hennar og einn af fjölskyldunni, féll fyrir eigin hendi nú fyrir örfáum vikum. Ellen heldur þétt utan um dóttur og barnabarn nú á erfiðum tímum, sem og aðra fjölskyldumeðlimi. Andlát Árna var reiðarslag.
„Mér datt þetta aldrei í hug. Við vorum nánast í daglegum samskiptum og hann kom hér oft með syni sínum. Hann skildi eftir sig tvo stráka, sextán og sex ára. Hann var alveg ótrúlega góður pabbi.“
„Við getum talað um þetta í dag því ég missti pabba minn svona þegar ég var sautján, en hann fyrirfór sér í Bandaríkjunum,“ segir Ellen.
„Í Bandaríkjunum var hann að drekka en var alltaf í einhverri vinnu. Hann og systir mín voru mjög tengd og ég fór út til hans þegar ég var þrettán og við áttum góða tíma. Ég fór svo aftur árið sem hann dó, hálfu ári síðar, og var hjá systur minni sem átti svo erfitt,“ segir hún.
„Pabbi gafst bara upp. Hann bjó í tveggja klukkutíma fjarlægð frá systur minni og hringdi oft í hana og hótaði að fyrirfara sér. Hún fór þá alltaf til hans en fór ekki í þetta sinn. Þetta var mjög erfitt fyrir hana, en hún var dugleg í sjálfsvinnu síðustu árin áður en hún dó. Sjálf var hún gift ofbeldismanni og lenti nokkrum sinnum inni á spítala,“ segir hún.
Ferill Ellenar spannar nú yfir fjörutíu ár og segist hún ekki hafa viljað hafa það neitt öðruvísi.
„Ég er alltaf að segja að ég geti ekki meir, að ég geti ekki sungið í fleiri jarðarförum. En svo verð ég alltaf svo þakklát að vera treyst fyrir því. Mér þykir svo vænt um það, og eins þegar ég syng í brúðkaupum og afmælum. Borgardætur voru búnar að vera í sjö ára hléi þegar við fylltum Norðurljósasalinn tvisvar. Ég er þakklát að hafa unnið með Kristjáni og Mannakornum. Við Kristján tókum hlé í covid eftir fimmtán ár að syngja saman, en sungum reyndar saman nú fyrir jólin,“ segir Ellen.
Fleiri en Ellen, bróðir og eiginmaður eru í tónlistinni; öll fjögur börnin hafa fetað í fótspor foreldrana. Dæturnar Sigríður, Elísabet og Elín, eða Sigga, Beta og Elín, eru þjóðinni kunnar eftir að hafa farið í Eurovision árið 2022 undir nafninu Systur með lagið Með hækkandi sól. Sonurinn Eyþór Ingi fylgdi systrum sínum út og spilaði með þeim á sviðinu á trommur.
Ellen var að vonum stolt af börnum sínum þegar ljóst var að þau færu í Eurovision fyrir Íslands hönd. Hún ætlaði út til Ítalíu að horfa á en endaði á að vera heima.
„Elsku börnin mín. Það var aldrei nein pressa að þau færu í tónlist en þau lærðu á píanó og voru síðar í hljómsveitum. Dæturnar eru allar að syngja og semja í dag og eru dásamlegar. Eyþór Ingi er líka í tónlist og vinnur í Tónastöðinni, en við vorum einmitt að gera saman lag sem við gefum bráðum út, kannski næst þegar gýs því það er um eldgos,“ segir hún og brosir.
„Þau eru á góðum stað í lífinu þó að við séum öll í sorginni núna.“
Talið víkur aftur að heimildarmyndinni, en á þeirri vegferð fór Ellen að skoða æskuheimili og leita að leiði föður síns. Ferðin ýfði upp erfiðar minningar.
„Það var svo eftir að ég kom heim að ég fór að hugsa meira um pabba og fór að pæla í því af hverju hlutirnir hefðu farið eins og þeir fóru. Allt þetta ástand. Ég hafði alltaf verið fyrirgefandi og var ekki mikið að hugsa um af hverju hann fyrirfór sér. Ég hafði alltaf logið að hann hefði dáið úr hjartaslagi. Ég sagði ekki börnunum frá því fyrr en Sigga var orðin tvítug. Þetta kom fram í bók sem Kristján bróðir skrifaði og ég varð brjáluð. Ekki út í hann samt heldur út í eitthvað. En við höfðum aldrei talað neitt um þetta; það voru aðrir tímar og þetta var mikil skömm. Ég vildi ekki láta vorkenna mér og skammaðist mín fyrir þetta. Ég hafði ýtt þessu í burtu. Við gerð myndarinnar ýfðust sem betur fer upp alls konar tilfinningar.“
Varstu þá reið út í pabba þinn?
„Rosalega reið. Ég fór þá að fara til sálfræðings í fyrsta sinn, sem er gott,“ segir hún og vill endilega að talað sé opinskátt um sjálfsvíg.
„Ég er í raun löngu búin að fyrirgefa pabba mínum en fékk bara reiðikast. Ég held að allt mitt líf hafi ég harkað af mér. Grunnurinn í mér er ansi brotinn og kannski verður þessi mynd til þess að hjálpa öðrum. Barnabarn mitt sem var að missa pabba sinn er nú jafngamalt og ég var þegar ég missti pabba minn. Það þarf að tala um þetta, alveg eins og talað er um krabbamein. Það þarf bæði að tala um alkóhólisma og sjálfsvíg.“
Ítarlegt viðtal er við Ellen í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.