Kennarar hafi lagt fram sömu tillögu í breyttri mynd

Inga Rún Ólafsdóttir formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Inga Rún Ólafsdóttir formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga segir Kennarasamband Íslands ekki hafa lagt fram tillögu um styttri kjarasamning líkt og þau haldi fram.

Engin grundvallarbreyting hafi verið lögð til heldur í raun sama tillagan í aðeins breyttri mynd.

„Það var í raun engin grundvallarbreyting og þau voru ekki að tala um styttri samninga, ekki á þessum fundi sem hann vísar í,“ segir Inga Rún Ólafsdóttir í samtali við blaðamann mbl.is.

„Þannig ég veit ekki alveg hvar vonbrigðin liggja.“

Ætla ekki að munnhöggvast

Hún segir það þó liggja á milli hluta og það sem skipti mestu máli sé auðvitað innihaldið og að ná samningum. Þau ætli sér því ekki að fara að munnhöggvast um smáatriðin. 

Formaður Kennarasambands Íslands, Magnús Þór Jónsson, segir kennara hafa lagt fram tillögu um síðustu helgi um að gerður yrði styttri kjarasamningur, mögu­lega til 18 mánaða eða allt að þriggja ára.

Þannig væri hægt að taka styttri skref í einu varðandi launaþátt­inn og gefa sér meiri tíma til að út­kljá mál sem hafa verið bit­bein síðustu mánuði.

Á föstudaginn sagði hann samninganefndir ríkis og sveitarfélaga aftur á móti ekki hafa ansað tillögunni.

Vilja opna nýja glugga

„Þeir vildu bara fá sínar launahækkanir fyrr, það var það sem þetta innihélt. En þau voru alveg andsnúin því að gera einhverjar breytingar á móti sem við viljum sjá,“ segir Inga.

Hún segir þær breytingar vera í takt við kjarasamninga þeirra sem kennarar vilji bera sig saman við en samninganefndin telji kjarabreytingar samhliða launahækkunum vera forsendu fyrir samningum.

Samninganefndin vinni nú hörðum höndum við að opna nýja glugga inn í viðræðurnar og vonist til þess að finna leið að samningaborðinu að nýju sem allra fyrst.

„Það sem skiptir öllu máli er að ná saman og ég veit að þau vilja það líka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert