Maður með skammbyssu í Múlahverfi

Maðurinn með skammbyssuna fannst ekki. Mynd úr safni.
Maðurinn með skammbyssuna fannst ekki. Mynd úr safni. mbl.is

Lögreglan var með töluverðan viðbúnað vegna einstaklings „sem var að meðhöndla skammbyssu á almannafæri“ í Múlahverfi í Reykjavík, að því er segir í dagbók lögreglu frá klukkan 17 í gær til klukkan 5 í morgun.

Þegar lögreglu bar að garði var hann farinn af vettvangi. Fannst hann ekki þrátt fyrir leit, að sögn lögreglu.

Málið er í rannsókn en ekki eru frekari upplýsingar um málið í dagbók lögreglu.

Ölvaður ferðamaður líklegur til slagsmála

Lögreglu var tilkynnt um ölvaðan ferðamann sem gerði sig líklegan til slagsmála við dyraverði í öldurhúsi í miðbænum.

Lögregla þurfti ekki að skerast í leikinn en allt hafði róast þegar laganna verðir mættu á öldurhúsið. Gekk ferðamaðurinn sína leið. 

Þá var tilkynnt um einstakling sem réðist á tvo aðra og skemmdi heyrnartól annars þeirra.

Fíkniefni fundust í fórum meints árásarmanns og var hann vistaður í fangageymslu í þágu rannsóknar málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert