Ný rannsókn á vegum Vatnaverkfræðistofu Háskóla Íslands í samstarfi við Veitur gefur til kynna að grunnvatnsgæði séu viðkvæm fyrir mengun af völdum gróðurelda. Gefin hefur verið út grein um rannsóknina og segir aðalhöfundur hennar að vatnsveitur þurfi að taka loftslagsbreytingar til greina í sinni áhættugreiningu til að tryggja gæði neysluvatns.
Þann 4. maí 2021 kviknaði stór gróðureldur í Heiðmörk eftir langvarandi þurrkatíð. Um 56 hektara svæði brann en þess ber að geta að í Heiðmörk eru fjölmargar borholur sem veita yfir 60% þjóðarinnar neysluvatn.
Við rannsóknina voru bornar saman niðurstöður efnagreininga fyrir og eftir brunann, frá árunum 2011 til 2023, alls 47 sýni þar af 28 fyrir brunann og 19 eftir brunann. Þar eru m.a. mæld ýmis lífræn efnasambönd, málmar og snefilefni.
„Það voru tekin venjubundnar sýnatökur fljótlega eftir brunann og þá kom þetta í ljós,“ segir María J. Gunnarsdóttir, sérfræðingur á verkfræði- og náttúruvísindasviði Háskóla Íslands og aðalhöfundur greinarinnar um rannsóknina.
„Það mældust nokkur arómatísk fjölhringa kolvatnsefni, svonefnd PAH-efni, sem er stór efnaflokkur sem verður m.a. til við brennslu á gróðri, og nokkur rokgjörn lífræn efni s.s. svonefnd BTEX efni.“
Segir hún að við gróðurelda geti þessi efni komist niður í grunnvatnið sérstaklega þar sem jarðlög eru lek eins og á Heiðmerkursvæðinu en þar er einnig víða grunnt niður á grunnvatnsborðið.
Nefnir María að mengunin sé þó ekki langvarandi í vatninu og virðist skolast fljótt úr því. Þá séu fá af þeim lífrænu efnum sem finnast í vatninu eftir gróðurelda hættuleg við skammtímanotkun en ekki sé hægt að segja það sama ef það væri langvarandi notkun. Sum þeirra eru skilgreind sem krabbameinsvaldandi og eru á hættulista yfir þrávirk lífræn efni.
María segir rannsóknina hluta af Norðurslóðaverkefni þar sem verið er að skoða mengun á Norðurslóðum og m.a. vísbendingar um áhrif frá loftlagsbreytingum. Rannsóknin hafi verið gerð til þess að vekja athygli á mögulegum áhrifum gróðurelda á vatnsverndarsvæðum.
Hún nefnir að vegna breytinga á veðurfari sem, auk langvarandi þurrka, geti líka valdið ákafri úrkomu sem aftur getur valdið flóðum og skriðuföllum. Segir hún að sérstaklega verði að huga að vatnsbólum sem séu í fjallshlíðum, eins og algengt er á sumum svæðum á Íslandi, sem geti verið í hættu við slíkar aðstæður.
„Það hefur komið fyrir að vatnsból hafa skemmst einmitt af völdum skriðufalla,“ segir María en hún hefur einmitt staðið að annarri rannsókn sem rannsakaði áhrif loftslagsbreytinga á vatnsveitur, en þá var horft á áhrif ákafrar úrkomu og hættu af skriðuföllum.
Hún segir hina hliðina hins vegar vera langvarandi þurrka tíð, sem geri töluvert auðveldara fyrir eld að kvikna, en mikill þurrkur hafði verið í Heiðmörk áður en gróðureldar kviknuðu þar 2021.
„Svo er náttúrulega spurning hvort mikil skógrækt sé hentug á vatnsverndarsvæðum. Það er mikill eldsmatur og eins í lággróðri og sinu.“
Þá bendir María að einnig á að huga þurfi að það sé ekki gróður of nærri vatnstökumannvirkjum og segir að vatnsveitur eigi að gera áhættugreiningu þar sem loftslagsbreytingaþáttur sé tekinn með inn í myndina, t.d. hvort að það sé hætta á skriðuföllum eða gróðureldum á vatnsverndarsvæðinu.
Hún segir vatnsveitur á höfuðborgarsvæðinu nú vera að taka þættina til greina en nefnir jafnframt að um 800 vatnsveitur séu á landinu sem séu eftirlitsskyldar.
Í greininni kemur fram að slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu hafi farið yfir verkferla sína eftir slökkviliðsaðgerðirnar í Heiðmörk 2021 og hvernig væri hægt að bæta þá.
Segir þar t.a.m. að tryggja þurfi aðgengi fyrir slökkviliðsstarf á vatnsendasvæðum þar sem aukin hætta er á gróðureldum sem og að tryggja eftirlit með þeim svæðum.
Segir María að á þeim svæðum geti gróður oft verið mikill og að það þurfi því að búa til vegi og leiðir sem auðveldi aðgengi slökkviliðs að gróðureldum skyldu þeir kvikna.
„Þetta er bara eitt af því sem við þurfum að hafa auga með og koma með góðar varnir til þess að koma í veg fyrir að það geti komið upp gróðureldar.“