„Unglingar sem upplifa óæskilegar kynferðislegar hugsanir, þau finna mjög mikla skömm og eru skíthrædd við að segja frá því hvernig þeim líður. Þau heyra umræðuna í samfélaginu og mögulega upplifa sjálfshatur og að það sé eitthvað að þeim. Fyrir vikið þá þora þau alls ekki að segja frá þessu eða leita sér hjálpar.“
Þetta segir Kolbrún Hrund Sigurgeirsdóttir, verkefnastýra ofbeldis- og kynheilbrigðismála hjá Barnaheillum. Síðustu tvö árin hefur verkefnið Heillabraut verið í þróun hjá samtökunum en það sprettur upp af erlenda verkefninu CSAPE. Verkefnið snýr meðal annars að fræðslu til ungmenna sem upplifa kynferðislegar hugsanir í garð barna.
„Ef við erum ekki að tala um þetta og benda á að það sé hjálp í boði, að ungmenni geti fengið hjálp, bæði við að ná tökum á hugsunum sínum og verkfæri til að haga sér á þann hátt að þau séu ekki að valda skaða, þá eru þau líklegri til dæmis til að fara inn á netið og „gúggla“. Og hvar lenda þau þá, eru þau þá að fá hjálp eða fara þau mögulega inn á einhverjar óæskilegar síður sem draga þau ennþá dýpra?“
Kolbrún bendir á að inni á djúpnetinu séu allskonar hópar þar sem fólk eflir hvort annað og skiptist á barnaníðsefni og öðru.
„Við viljum ekki missa unga fólkið okkar þangað.“
Hún segir að með aukinni fræðslu væri hægt að koma þeim upplýsingum til þessara ungmenna að þau séu ekki ein í heiminum og geti fengið hjálp. Að þau geti lifað góðu lífi án þess að valda skaða.
Markmiðið sé líka að þjálfa fullorðið fólk í að þekkja hætturnar og úrræðin og þannig sé hægt að bregðast við. Með fræðslunni á því að reyna að ná til ungmenna, foreldra og þeirra sem vinna með börnum og unglingum.
Spurð hvernig þau geti nálgast börn og ungmenni sem hafa kynferðislegar hugsanir gagnvart börnum, til þess að grípa inn í, segir Kolbrún markmiðið að reyna að koma þeim upplýsingum til unglinganna.
„Í námskeiðunum hvetjum við fullorðna fólkið til að koma þessum upplýsingum á framfæri. Til dæmis með því að hengja upp veggspjöld þar sem unglingar eru, eða setja inn á samfélagsmiðla, t.d. ef þetta er starfsfólk félagsmiðstöðva. Einnig taka þessa umræðu í kynfræðsluspjalli, að sumir hafi áhyggir af kynferðislegum hugsunum sínum. Að kannski hugsi maður eitthvað sem maður veit að er bannað,“ segir Kolbrún.
Mikilvægt sé að það komist til skila að börnin geti rætt við einhvern fullorðinn í trúnaði og fengið hjálp.
„Um leið og ungmenni er komið inn á netið og farið spjalla við aðra með sömu hugsanir þá getur það farið algjörlega í hina áttina. Tölfræðin sýnir okkur að meðferð eins og SÓK-teymið og Taktu skrefið bjóða upp á virkar. Með því að fá ungmenni til að leita sér aðstoðar varðandi óæskilegar hugsanir sínar og hegðun þá getum við verið að bjarga mjög mörgum börnum.“
Fjallað hefur verið um meðferðirnar á mbl.is en um er að ræða úrræði sem ætluð eru gerendum kynferðisbrota í þeim tilgangi að draga úr líkum á að þeir brjóti af sér aftur, og þeim sem upplifa óviðeigandi kynferðislegar hugsanir. Taktu skrefið er úrræði fyrir fullorðna sem komið var á fót árið 2022, en sálfræðiþjónustu fyrir börn vegna óviðeigandi kynhegðunar (SÓK) var komið á fót árið 2009.
Á síðasta ári bárust lögreglunni 126 tilkynningar um kynferðisbrot gegn börnum og fjölgaði þeim um 6 prósent samanborið við meðaltal síðustu þriggja ára. Þá bárust 40 tilkynningar um barnaníð og fjölgaði þeim tilkynningum um 22 prósent samanborið við meðaltal síðustu þriggja ára. Inni í þeim tölum eru líka brot barna gegn börnum.
„Kynferðisbrot gegn börnum eru alltof algeng og við erum að sjá að þeir sem eru að brjóta á þeim eru í langflestum tilfellum einhver sem er þeim nákominn. Ef hann er ekki nákominn barninu þá er algengt að nota netið til að reyna að tengjast börnum. Þá nota þeir tælingu og byrja yfirleitt á því að byggja upp traust milli sín og barnsins áður en þeir brjóta gegn barninu. Því ef traust er til staðar er auðveldara að stjórna barninu og það er ólíklegra til að segja frá“ segir Kolbrún.
Hluti af verkefninu Heillabraut er einnig að gefa út fræðsluefni fyrir börn og ungmenni um líkamann, mörk, samskipti, sambönd og ofbeldi. Einnig er boðið upp á ýmiskonar fræðslu s.s. um hvernig bregðast á við þegar unglingur brýtur gegn öðrum unglingi og almenna fræðslu fyrir fullorðna um kynferðisofbeldi gegn börnum. Þar lærir fólk t.d. að þekkja hætturnar og segir Kolbrún að mikilvægt sé að fólk viti hvernig hegðun barna það á að vera á varðbergi fyrir.
„Hvaða hegðun sýna börn sem eru beitt ofbeldi en hafa ekki orðin til að segja frá eða eru ófær um að segja frá. Hvernig getum við lesið í hegðun þeirra og verið meira vakandi. Hvernig getum við sett upp hindranir í samfélaginu til að reyna að minnka líkurnar á kynferðisofbeldi gegn börnum. Hvernig getum við fengið þá sem brjóta af sér til að fá hjálp, því ef þeir fá ekki hjálp þá gera þeir ekki betur. Við töpum öll á því“
Hún bendir á að hér áður fyrr hafi verið talað um að börn hafi þurft að segja frá allt að sjö sinnum áður en á þau var hlustað, en það sé vonandi að breytast.
Greint hefur verið frá því á mbl.is að hópur ungmenna hafi lagt gildrur með tálbeituaðferð fyrir meinta barnaníðinga, sem hafa reynt að komast í kynni við börn á samfélagsmiðlum. Kolbrún segir þessar aðgerðir sýna að unga fólkið sé ósátt við að það sé svona auðvelt aðgengi að börnum í gegnum netið. Að það séu svona margir karlar tilbúnir að reyna að lokka til sín börn.
„Það rosalega mikið um þetta í samfélaginu okkar. Það er fullt af fólki sem er í óæskilegum samskiptum við börn á netinu. Það er ekki í lagi. Þessi ungmenni eru að taka þetta í sínar hendur, líka til að sýna okkur hinum, sem erum ekki að fatta hvað þetta er mikið. Þau vilja að þessir menn beri ábyrgð á hegðun sinni og vilja refsingu fyrir þá. En að sama skapi eru svona tálbeituaðferðir ekki góðar, því við vitum að það er ekki víst að hægt sé að nota gögnin fyrir dómi.“