Sjálfstæðisfélögin í Árborg og fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Árborg hvetja Guðrúnu Hafsteinsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, til að bjóða sig fram til formanns á landsfundi flokksins í lok febrúar.
Í tilkynningu frá félögunum segir að Guðrún hafi með krafti, dugnaði og framsýni komið inn í íslensk stjórnmál og óhikað barist fyrir bættu samfélagi með sjálfstæðisstefnuna að leiðarljósi.
Árborgarfélögin bætast þar með í hóp fleiri sjálfstæðisfélaga sem hafa skorað á Guðrúnu að gefa kost á sér til formanns Sjálfstæðisflokksins en á dögunum skoruðu félag sjálfstæðismanna í Ölfusi og Sjálfstæðisfélags Reykjanesbæjar á hana að gefa kost á sér.
Fleiri sjálfstæðisfélög í Suðurkjördæmi, heimakjördæmi Guðrúnar, hafa einnig hvatt hana til að bjóða sig fram, þar á meðal Sjálfstæðisfélag Hveragerðis og sjálfstæðisfélögin í Austur-Skaftafellsýslu.
Í gær tilkynnti Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir um framboð sitt en eins fram hefur komið ætlar Bjarni Benediktsson ekki að gefa kost á sér í formannskjörinu á komandi landsfundi.