Fjölmenni var á fögnuði í Hörpu í gær sem blásið var til í tilefni af stórafmæli Friðriks Ólafssonar, eins sigursælasta skákmeistara Íslendinga. Friðrik fagnaði 90 árum.
Friðrik var um tíma í hópi sterkustu skákmanna heims. Hann varð fimm sinnum Íslandsmeistari í skák, fyrst árið 1952, og tvisvar Norðurlandameistari, árin 1953 og 1971, varð alþjóðlegur skákmeistari 1956 og fyrsti íslenski stórmeistarinn í skák árið 1958. Friðrik starfrækti Skákskóla Friðriks Ólafssonar 1982-1984. Hann hefur skrifað nokkrar bækur, þar á meðal Lærið að tefla, kennslubók í skák, ásamt Ingvari Ásmundssyni, sem kom út 1958, og Heimsmeistaraeinvígið í skák, 1972, ásamt Freysteini Jóhannssyni, sem kom út 1972.
Þá hefur hann auk þess skrifað fjölda greina um skák í tímarit og dagblöð. Hann hlaut riddarakross fálkaorðunnar árið 1972 og stórriddarakross 1980.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag