„Það eru eins og alltaf allskonar samtöl í gangi á milli aðila og þau halda áfram. Við erum aktíft að leita leiða til að leysa þennan ágreining. En það hefur engin ákvörðun verið tekin um formlega fundarboðun,“ segir Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari í samtali við mbl.is, um stöðuna í kjaradeilu kennara, ríkis og sveitarfélaga.
Samninganefndirnar funduðu síðast á miðvikudag og var þá reynt til þrautar að finna grundvöll til frekara samtals, án árangurs.
Um leið og Ástráður sér ástæðu til og telur gagnlegt að deiluaðilar hittist með formlegum hætti mun hann boða til fundar. Að svo stöddu telur hann að það muni ekki skila árangri.
„Það er stundum þannig að það borgar sig ekki að halda fundum áfram vegna þess að það gæti leitt til þess að herða deilurnar. Þá reynir maður aðrar aðferðir. Kjarasamningar eru gerðir með allskonar aðferðum, við höfum gert kjarasamninga þar sem aðilar hafa aldrei hist, kannski verið í sitthvoru húsinu. Allar aðferðir sem geta skilað árangri eru notkun og verða það áfram.“
Formaður Kennarasambandsins sagði í samtali við mbl.is á föstudag að kennarar hefðu lagt fram tillögu um að gerður yrði styttri kjarasamningar, til 18 mánaða eða allt að þriggja ára, og taka þannig styttri skref einu varðandi launaþáttinn. Sem er eitt helsta bitbeinið í deilunni. Þeirri tillögu hefði hins vegar ekki verið svarað af hálfu ríkis og sveitarfélaga.
Formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga (SÍS) sagði hins vegar í samtali við mbl.is í gær að kennarar hefðu ekki lagt fram tillögu um styttri samning. Einungis hefði verið lögð fram sama tillaga og áður, í breyttri mynd.
„Þeir vildu bara fá sínar launahækkanir fyrr, það var það sem þetta innihélt. En þau voru alveg andsnúin því að gera einhverjar breytingar á móti sem við viljum sjá,“ sagði Inga Rún Ólafsdóttir, formaður saminganefndar SÍS.
Kennarar hafa til að mynda sagt að þeir séu ekki tilbúnir að gera breytingar á fyrirkomulagi vinnutíma, sem er ein að þeim hugmyndum sem lagðar hafa verið fram af hálfu sveitarfélaganna.
Spurður út í tillögu kennara um styttri samning, segir Ástráður ýmsar hugmyndir hafa komið upp, meðal annars að semja til skemmri eða lengri tíma.
„Þetta eru allt einhver púsl sem gætu haft áhrif á heildarmyndina. Það þýðir ekkert að vera að elta ólar við það hver sagði hvað við hvern, hvenær, enda veit ég það ekkert nákvæmlega og vil ekkert vita það. Við erum að reyna á jákvæðum forsendum að finna einhverja lausn á málinu og við gefumst ekkert upp á því.“
Finnst þér ekki vera komin meiri harka í samtalið?
„Það er ég ekkert viss um, en eðli málsins samkvæmt, ef það kemur til eiginlegra átaka, þá er auðvitað alltaf hætta á því að svona deilur harðni og súrni. Þess vegna er mikilvægt að reyna að komast hjá átökum á vinnumarkaði.“
Á föstudag sagði Magnús Þór Jónsson, formaður KÍ, að kennarar kölluðu eftir því að stjórnvöld myndu stíga inn í viðræðurnar og höggva á hnútinn í deilunni. Samningar næðust ekki nema með aðkomu stjórnvalda.
Ástráður segist ekki geta dæmt um hvort það sé nauðsynlegt að svo stöddu.
„Ég veit að stjórnvöld hafa verið að fylgjast með málinu og veit að stjórnvöld hafa verið í samtölum við aðila. Ég þykist vita að á vegum stjórnvalda sé unnið að því að hjálpa aðilum til að finna lausn á málinu, en nákvæmlega hvernig það mun líkamnast veit ég ekki.“
Náist samningar ekki fyrir mánaðamót hefjast verkföll í fjórtán leikskólum og sjö grunnskólum mánudaginn 3. febrúar. Þá hefur Félag framhaldsskólakennara gefið út að farið verði í atkvæðagreiðslu um ótímabundin verkföll í nokkrum framhaldsskólum, eftir að friðarskyldu lýkur um mánaðamótin.
Formaður Kennarasambands Íslands hefur sagt að hann útiloki ekki að farið verði í allsherjarverföll hafi samningar ekki náðst þegar líður á febrúar.
Hópur foreldra leikskólabarna hefur stefnt Kennarasambandi Íslands, fyrir hönd barna sinna, vegna verkfallsaðgerða kennara, sem foreldrarnir telja ólöglegar. Málið verður tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í vikunni.
Um er að ræða hóp foreldra barna á þeim fjórum leikskólum þar sem leikskólakennarar fóru í ótímabundnar verkfallsaðgerðir fyrir áramót. Stóðu aðgerðirnar yfir í fimm vikur, eða þar til verkföllum var frestað með samkomulagi um friðarskyldu, sem lýkur 1. febrúar.
Verkfallsaðgerðir á öðrum skólastigum voru tímabundar og vilja foreldrar fá úr því skorið hvort fyrirkomulag aðgerða kennara í leikskólum, hafi verið löglegar, þar sem þær hafi aðeins bitnað á fámennum hópi barna um óákveðinn tíma.