„Þetta er því miður miklu algengara en fólk gerir sér grein fyrir,“ segir Birna Varðardóttir um átröskun í keppnisíþróttum, en hún varði nýlega doktorsverkefni sitt tengt hlutfallslegum orkuskorti í íþróttum.
„Í doktorsrannsókn minni skimuðum við meðal annars fyrir átröskunarhegðun hjá íslensku afreksíþróttafólki og yfir heildina reyndust um tíu prósent vera með veruleg einkenni átröskunarhegðunar,“ segir Birna og bætir við að átraskanir séu sérstakur áhættuþáttur fyrir hlutfallslegan orkuskort. „Ef þú borðar ekki í samræmi við þarfir getur það bitnað verulega á líkamskerfum þínum og þar með árangri líka.“
Hún segir að þátttakendur í rannsókninni hafi verið íþróttakonur og -karlar á nokkuð breiðu aldursbili og úr fjölbreyttum íþróttum. „Vægari einkenni eins og hræðsla við að þyngjast og takmörkun á kolvetnainntöku voru líka mjög algeng, og þá líka meðal þeirra sem voru ekki metin í sérstakri hættu á átröskun. Neikvæð líkamsímynd var áberandi hjá bæði körlum og konum en í rannsókninni var einnig skimað fyrir vöðvaskynjunarröskun, sem má lýsa sem sterkri og sífelldri löngun til að auka vöðvamassa og hafa litla líkamsfitu.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag