Myndskeið: Leðurblakan flýgur háskalega nálægt sundgestum

Video Player is loading.
Current Time 0:00
Duration 0:00
Loaded: 0%
Stream Type LIVE
Remaining Time 0:00
 
1x
  • Chapters
  • descriptions off, selected
  • subtitles off, selected
    • Quality

    Það kom gest­um Laug­ar­dals­laug­ar hressi­lega á óvart þegar þeir urðu var­ir við leður­blöku á lág­flugi yfir laug­inni á sunnu­dag. Spen­dýrið hef­ur verið á ferð og flugi um Laug­ar­dal­inn síðustu daga. Hún hef­ur nú verið hand­sömuð.

    „Allt í einu heyri ég gasprað í tal­stöðina að það sé leður­blaka í laug­inni,“ seg­ir Sig­urður Jök­ull Ægis­son, starfsmaður Laug­ar­dals­laug­ar, í sam­tali við mbl.is.

    Eins og mbl.is greindi frá síðdeg­is á sunnu­dag var lög­regla kölluð út vegna leður­blöku. Einnig sást til leður­blöku á flögri við Laug­ar­nes­veg hinn 13. janú­ar. Mögu­lega var þar sama leður­blaka á ferð enda eru þær ekki marg­ar hér á landi.

    Á stærð við tvo hnefa

    „Ég sé hana í hnypri við úti­klef­ana að deyja úr kulda,“ held­ur Sig­urður áfram en hon­um sýnd­ist dýrið vera á stærð við tvo hnefa.

    Sam­starfs­fé­lagi Sig­urðar greip til þeirra ráða að reyna að kló­festa dýrið með háfi á meðan það stóð kyrrt við úti­klef­ann.

    „En þegar hann nálg­ast hana með háfinn tek­ur hún á flug og byrj­ar að fljúga lág­flugi yfir laug­ina, eig­in­lega upp við einn kúnna.“

    Sig­urður náði lág­flugi dýrs­ins á mynd­skeiði en þar má sjá leður­blök­una fljúga afar ná­lægt sund­laug­ar­gesti. Gest­ur­inn leyfði at­vik­inu samt ekki að eyðileggja fyr­ir sér sund­ferðina: „Hann hélt svo bara áfram að synda,“ seg­ir Sig­urður.

    Skömmu síðar flökti leður­blak­an aðeins um svæðið og flaug síðan út í borg­ina. Í kjöl­farið var hringt á lög­regl­una, sem mætti á vett­vang, og Mat­væla­stofn­un, sem kvaðst þó ekk­ert geta gert fyrst dýrið hefði þegar flogið á braut.

    „Það voru eig­in­lega all­ir undr­andi á þessu,“ seg­ir Sig­urður spurður út í viðbrögð gesta. „Fólki fannst þetta bara mjög skemmti­leg upp­lif­un, og fyndið. Það var eng­inn sem tók illa í þetta.“

    Gæti hafa komið með gámi til lands­ins

    Leður­blök­ur eru þekkt­ir smit­ber­ar og kom­um þeirra til lands­ins hef­ur fjölgað á und­an­förn­um árum.

    Mögu­lega hef­ur þessi til­tekna leður­blaka kom­ist hingað með gámi, þá lík­lega hjá Sunda­höfn enda sást til slíks spen­dýrs á flugi fyrr í mánuðinum við Laug­ar­nes­veg skammt frá höfn­inni.

    Árið 2015 fund­ust þrjár leður­blök­ur á Sigluf­irði sem höfðu farið með dönsku skipi er sigldi frá Belg­íu.

    Fyr­ir tæp­lega tveim­ur árum fannst leður­blaka í Kópa­vogi. Í raun hafa að minnsta kosti átta mis­mun­andi teg­und­ir leður­blakna fund­ist á Íslandi, sam­kvæmt rann­sókn frá ár­inu 2014.

    mbl.is
    Fleira áhugavert

    Innlent »

    Fleira áhugavert