Birta Hannesdóttir
Hvassviðrið sem gengur yfir landið hefur ekki haft mikil áhrif á störf Landsbjargar enn sem komið er. Eitthvað hefur verið um útköll en þau hafa flest verið smávægileg.
Þetta segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is.
„Þetta er almenn óveðursaðstoð. Það eru einhver foktjón sem er verið að reyna koma í veg fyrir,“ segir Jón Þór. Til að mynda hafi Björgunarsveitin Elliði á Snæfellsnesi verið kölluð út vegna gróðurhúss sem var að fjúka.
Gular- og appelsínugular veðurviðvaranir eru í gildi um allt land og er fólk sem er í ferðahug hvatt til þess að fylgjast vel með færð á vegum og veðurspám þar sem það verður lægðagangur og erfið akstursskilyrði næstu daga.
Búið er að loka fyrir umferð á Hellisheiði í báðar áttir.