Man ekki eftir að hafa „lækað“ færslu um „falsfréttamiðla“

„Ég ætla að viðurkenna að ég man ekki nákvæmlega eftir …
„Ég ætla að viðurkenna að ég man ekki nákvæmlega eftir færslunni,“ sagði Þorbjörg Sigríður í samtali við blaðamann. Samsett mynd/Eyþór Árnason/Eggert Jóhannesson

Dómsmálaráðherra kveðst ekki muna eftir færslu Ingu Sæland á Facebook sem vandar ekki „óvönduðum falsfréttamiðlum í eigu auðmanna“ kveðjurnar vegna umfjöllunar um styrkveitingar og skráningu flokksins.

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra settu engu að síður báðar „læk“ við færsluna.

„Ég ætla að viðurkenna að ég man ekki nákvæmlega eftir færslunni,“ sagði Þorbjörg Sigríður í samtali við blaðamann mbl.is innt eftir því hvort hún taki undir sjónarmið Ingu um að um falsfréttaflutning hafi verið að ræða og hvað hafi þá verið falskt í þeirri umfjöllun.

Fjölmiðlar gegni lykilhlutverki í samfélaginu

Færsluna birti Inga í kjölfar fréttaflutnings um að flokkurinn væri raunar ekki skráður sem stjórnmálaflokkur og hefði fengið styrkveitingar frá ríkinu í trássi við lög upp á 240 milljónir króna sem þau hyggjast ekki ætla að endurgreiða.

Enginn fjölmiðill var greindur á nafn í færslunni en Inga nefndi síðar Morgunblaðið og Hádegismóa, þar sem blaðið er til húsa, í viðtali á Útvarp Sögu og í hlaðvarpinu Eyjunni.

„En varðandi það mál þá kemur auðvitað á daginn að reglum var breytt um þessar skráningar og mjög margir flokkar, held ég, fimm af þeim átta sem þá voru á þingi uppfylltu ekki viðmið. Framan af var fókusinn á einum flokki í þeim efnum en þeir reyndust svo vera fleiri,“ segir Þorbjörg Sigríður.

„En þetta er til skoðunar núna og almennt séð er ég bara á því að fjölmiðlar gegni lykilhlutverki í íslensku samfélagi og séu grundvallarstoð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert