Níu sagt upp hjá DTE

Jakob Ásmunsson, framkvæmdastjóri DTE.
Jakob Ásmunsson, framkvæmdastjóri DTE. Ljósmynd/Aðsend

Níu manns var sagt upp í vikunni hjá íslenska nýsköpunarfyrirtækinu DTE.

Þetta upplýsir framkvæmdastjóri DTE, Jakob Ásmundsson, í skriflegu svari til mbl.is

„Í vikunni kvöddum við níu starfsmenn hjá fyrirtækinu. Þessar breytingar eru hluti af því að skerpa fókus félagsins og leggja aukna áherslu á kjarnatækni,“ skrifar Jakob.

Uppsagnirnar koma aðeins nokkrum dögum eftir að greint var frá ráðningu Jakobs sem framkvæmdastjóra fyrirtækisins, en þá var jafnframt greint frá því að Jakob ætti að leiða fyrirtækið í gegnum vaxtarfasa.

Í svarinu til mbl.is segir Jakob stærstan hluta breytinganna tengjast verkefni sem nú sé að ljúka og að í framhaldi af því muni fyrirtækið fjárfesta frekar í kjarnavöru sinni og þeim tækifærum sem felast í henni.

Tækni sem felur í sér byltingu í álframleiðslu og endurvinnslu

„Tækni DTE felur í sér byltingu í álframleiðslu og endurvinnslu. Tæknin gerir álframleiðendum kleift, í fyrsta skipti í sögunni, að framkvæma örar greiningar í rauntíma á bráðnum málmi og bæta þannig bæði framleiðsluferlið og gæði vörunnar.“

Jakob segir félagið hafa lagt mikla vinnu í að undirbúa þann vöxt sem er fram undan. Hann segir lykilatriði til að standa undir þeirri eftirspurn sem er til staðar fyrir tæknina vera að kröftum sé beint að kjarnavöru félagsins og að fyrirtækið hámarki bæði verðmæti og gæði hennar.

„Það er alltaf erfitt að kveðja gott starfsfólk, og við viljum nota tækifærið til að þakka þeim fyrir þeirra framlag og óska þeim velfarnaðar á nýjum vettvangi.“

Ekki fengust svör við hvort von væri á fleiri uppsögnum hjá fyrirtækinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert