Segir alla hundfúla yfir tillögunni

Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari segist munu sitja og telja á sér …
Ástráður Haraldsson ríkissáttasemjari segist munu sitja og telja á sér tærnar og bíða eftir því hvað gerist. mbl.is/Árni Sæberg

„Það eru all­ir aðilar máls­ins hund­fúl­ir yfir þess­ari til­lögu. Það finnst þetta öll­um ómögu­legt,“ seg­ir Ástráður Har­alds­son rík­is­sátta­semj­ari held­ur mæðulega yfir sím­ann í sam­tali við blaðamann mbl.is.

Ástráður lagði fram svo­kallaða inna­hústil­lögu í kjara­deilu kenn­ara, rík­is og sveit­ar­fé­laga í gær.

Til­lag­an fel­ur meðal ann­ars í sér að deila um jöfn­un launa á milli markaða verði út­kljáð með virðismati og ver­káætl­un til 20 mánaða.

Þar sem ekki er um miðlun­ar­til­lögu að ræða fer hún ekki beint í at­kvæðagreiðslu hjá fé­lags­fólki Kenn­ara­sam­bands Íslands.

Tíð hinna reyk­fylltu bak­her­bergja kom­in aft­ur

Um er að ræða til­lögu til samn­inga­nefnd­anna um það hvernig kjara­samn­ing­ur í heild sinni gæti litið út. Ef til­lag­an verður samþykkt und­ir­rita aðilar og þar með er kom­inn á kjara­samn­ing­ur og friðarskylda. Til­lag­an gengi svo til at­kvæða.

Seg­ir Ástráður að nú sé aft­ur kom­in tíð hinna reyk­fylltu bak­her­bergja. Menn séu að tala sig sam­an og að það verði bara að eiga sinn tíma. Tím­inn er þó af skorn­um skammti enda hafa samn­inga­nefnd­irn­ar ein­ung­is tíma til klukk­an 13 á morg­un til að taka af­stöðu til til­lög­unn­ar.

Tel­ur á sér tærn­ar

„Sjálfsagt er fólk ör­ugg­lega eitt­hvað að hitt­ast eða tala sam­an í síma en við verðum bara að sjá hvað verður á morg­un. Þangað til sit ég bara hér og tel á mér tærn­ar og bíð eft­ir því hvað ger­ist,“ seg­ir Ástráður.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert