„Ég var vakin klukkan fjögur í nótt“

Mikið vatn flæddi inn í bíla­kjall­ara versl­un­ar- og skrif­stofu­hús­næðis á Dal­vegi 30 í Kópa­vogi og inn á lager verslunarinnar Sassy sem er þar til húsa á jarðhæð.

„Þetta er auðvitað bara ófyrirsjáanlegt. Ég var vakin klukkan fjögur í nótt á mínum tíma,“ segir eigandi verslunarinnar, Aníta Ýr Guðnýjardóttir, í samtali við mbl.is.

Hún er um þessar mundir stödd í New York borg í Bandaríkjunum og segir erfitt að vera ekki á staðnum þegar svona gerist.

„Það er erfitt, óþægilegt að vera svona langt í burtu en ég er með topp fólk sem hljóp til. Það voru allir ræstir út.“

Opið á milli bílakjallara

Að sögn Anítu sprakk vatnslögn ofar á Dalvegi með þeim afleiðingum að allt vatn úr lögnunum safnaðist saman ofan í grunninum á framkvæmdum við hliðina á Dalvegi 30.

„Grunnurinn við hliðina á okkur er troðfullur af vatni og þar er ekki alveg lokað á milli í bílakjallaranum af því að þeir verða sameinaðir,“ segir hún.

„Það er niðurfall inni á lager en það réði ekkert við þetta, þetta var ekkert eðlilega mikið magn. Þetta var kannski sentimetri inni hjá okkur, en úti í bílakjallara var þetta alveg upp að hnjám,“ segir Aníta en að sögn Stef­áns Krist­ins­son­ar, varðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborg­ar­svæðinu, náði vatnið í bílakjallaranum 70 til 80 sentimetrum þegar mest var.

Venja sig á að geyma hluti ekki á gólfinu

„Þetta slapp í rauninni furðu vel miðað við og allur lager sjálfur er í lagi. Auðvitað er þetta alltaf tjón, þetta er alltaf bras og leiðinlegt en bara gott að venja sig á að vera ekki að geyma hluti á gólfinu,“ segir Aníta.

Einhverjar innstungur og millistykki hafi verið á gólfinu en enn sem komið er virðist vera í lagi með raftækin sem þar voru í sambandi, að undanskildu tölvuhleðslutæki.

Þá segir hún fólkið sitt vinna hörðum höndum að því að þurrka rýmið og koma öllu í stand aftur.

Þegar mest var náði vatnið um 70 til 80 sentimetra …
Þegar mest var náði vatnið um 70 til 80 sentimetra hæð.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert