„Ég er mikill áhugamaður um sögu og sérstaklega sögu heimabyggðar,“ segir Brynjar Karl Óttarsson, sögukennari við Menntaskólann á Akureyri, göngugarpur og grúskari í íslenskum fræðum, sem um jólin gerði merkilega uppgötvun þar sem hann var við rannsóknir á Amtsbókasafninu á Akureyri.
Brynjar lauk á sínum tíma prófi frá Kennaraháskóla Íslands heitnum og sinnti grunnskólakennslu fram að því er hann tók við stöðu sinni við menntaskólann forna norðan heiða. Stríðsminjar eru honum sérstaklega hugleiknar og tilheyrir hann á þeim vettvangi gönguhópnum Varðveislumönnum minjanna sem gerir víðreist við Eyjafjörðinn og er raunar alls ekki langt síðan Brynjar ræddi þetta hjartans mál sitt við mbl.is í ágúst.
„Ég er á kafi í sögugrúskinu samhliða kennslu,“ segir kennarinn sem er borinn og barnfæddur Eyfirðingur og hefur búið við fjörðinn alla sína ævi að frátöldum þremur námsárum í höfuðstaðnum. Við færum talið að uppgötvun þeirri sem viðtalið snýst um.
„Meðal þess sem ég er að rannsaka er bókasending breskrar hefðarkonu til Amtsbókasafnsins á Akureyri í aðdraganda seinni heimsstyrjaldar,“ segir Brynjar frá, en inngangurinn snýst um konu þessa, May Morris, dóttur breska rithöfundarins og textílhönnuðarins Williams Morris sem var mikill Íslandsvinur og áhugamaður um norræn fræði.
Morris lærði íslensku af Eiríki Magnússyni, bókaverði í Cambridge, og þýddi margar Íslendingasögur í samstarfi við hann auk þess að gefa Gunnlaugs sögu Ormstungu út, Grettis sögu og Völsungasögu.
„May Morris eignaðist vini hérna á Akureyri og rétt áður en hún lést sendi hún ýmsar gjafir frá Kelmscott-setrinu, þar sem hún bjó, víða um Bretland og reyndar út fyrir landsteinana líka og meðal þeirra voru 400 bækur sem komu til Húsavíkur 1936 og aðrar 400 til Amtsbókasafnsins vorið 1939,“ segir Brynjar frá.
Það sem hann segir spennandi við sögu Morris-feðginanna er skortur á skráningum um gjafir dótturinnar, slíkar hafi í það minnsta ekki enn fundist á Amtsbókasafninu. „Samt leikur enginn vafi á því að safnið fékk þessa sendingu,“ segir Brynjar, „Davíð Stefánsson frá Fagraskógi var amtsbókavörður á þessum tíma og hann skrifaði grein í Íslending vorið ´39 þar sem hann þakkar fyrir bókagjöfina og útlistar frá hverjum hún er og hvers lags bækur þetta eru,“ heldur hann áfram.
Segir Brynjar ekki ólíklegt að innan um bækurnar sem May Morris gaf á dánarbeði hafi leynst bækur frá föður hennar. „Um þetta er ég mjög forvitinn og er að fara af stað í þessa vinnu og þar sem engin gögn finnast um þessa gjöf hjá safninu er plan B að fara á safnið og leita. Ég fékk leyfi til þess að fara niður í kjallara safnsins og fara í gegnum gamlar bækur sem eru ekki lengur til útláns. Þarna leynast safngripir sem ná jafnvel langt aftur í aldir,“ segir hann frá.
Og hér dregur til tíðinda úr allt annarri átt – mitt í rannsókn sögukennarans á breskri bókagjöf.
„Þar rakst ég á bók Rasmusar Christians Rask,“ segir Brynjar og vísar þar til hins kunna danska málfræðings sem var mikill Íslandsáhugamaður og dvaldi langdvölum á landinu í heimsókn snemma á 19. öld, á sama tíma og Napóleon Bónaparte átti í þeim styrjöldum er við hann eru kenndar á evrópska meginlandinu.
Brynjar heldur úti fróðlegri síðu á lýðnetinu, Grenndargralinu, og við grípum niður í klausu þar um Rask:
Rask var málfræðingur og einn fremsti málvísindamaður síns tíma. Næm tilfinning og hæfileiki til að læra ný tungumál komu fram á unga aldri í tilfelli Rask. Hann var áhugasamur um Ísland, raunar svo mjög að hann lærði að tala íslensku sem Íslendingur væri. Þetta gerði hann með Heimskringlu að vopni og samtölum við Íslendinga í Kaupmannahöfn.
Íslensk málfræði var honum sérlega hugleikin eins og sjá má í Vejledning til det Islandske eller gamle Nordiske Sprog en hún er kennslubók í málfræði. Hún var fyrsta bókin sem Rask skrifaði og vakti strax mikla athygli fyrir nýstárleg efnistök.
Svo vildi til að Brynjar rakst á eintak af téðri bók Rask, sem út kom í Kaupmannahöfn árið 1811, í kjallara bókasafnsins og fann á saurblaði hennar handskrifaða áritun sem heldur betur vakti áhuga hans – og mun án allra tvímæla vekja áhuga fleiri sem láta sér annt um forn fræði, málvísindi og þjóðlegan fróðleik. Er sú eftirfarandi:
Hávelborinn
Hra konferenzráði St. Thorarensen
með hæztu virðingu og þakklátsemi
frá höfundinum.
Kveður Brynjar nánari athugun nú hafa leitt í ljós að bók þessi, árituð af Rask sjálfum, hafi verið gjöf til Stefáns Thorarensen, amtmanns á Möðruvöllum í Hörgárdal (1754 – 1823). „Stefán er ekki síður áhugaverð persóna í sögunni en það sem meira er, þarna eru líka tengsl við May og William Morris. Ég fann bók frá 18. öld merkta Stefáni en hún hefur ákveðin sérkenni sem hægt er að rekja til þeirra feðgina. Þetta er allt mjög spennandi,“ lýsir Brynjar.
Hann hafi í framhaldinu farið að hafa augun opin fyrir bókum merktum amtmanninum. „Hann var mikill bókamaður sjálfur og svo virðist sem eitthvað af bókum úr hans fórum hafi endað á Amtsbókasafninu,“ segir Brynjar og bendir á að forveri bókasafnsins, sem stofnað er árið 1827, hafi verið lestrarfélag sem Stefán stofnaði sjálfur árið 1791.
„Þannig að þetta rímar alveg, að eitthvað af hans bókum hafi endað á safninu og séu þannig enn í vörslum safnsins,“ segir Brynjar frá og játar að hann hafi í fyrstu ekki áttað sig fyllilega á að bókin sem hann hafði í höndum sér hefði verið gjöf Rask fyrir tveimur öldum og rúmlega það vegna þess hve sjálf undirskriftin, „frá höfundinum“, hafi verið ólæsileg.
„Ég var búinn að ráða efri hlutann, kveðjuna, en áttaði mig ekki á hvað kom á eftir „frá“, ég var alltaf að reyna að tengja við eitthvað ákveðið nafn og það var ekki fyrr en ég hætti því að ég áttaði mig á að þarna stæði „frá höfundinum“ og Rask er vissulega höfundur bókarinnar auk þess sem hann var hér á landi árin 1813 – ´15,“ heldur Brynjar áfram og segir að nánast enginn vafi geti leikið á því að þarna sé komið eintak af bók Rasks sem hann gaf Stefáni amtmanni þegar hann heimsótti hann í júlí 1814.
Sem grúskari kveðst Brynjar vera kominn í gullkistu í kjallara safnsins. Að hafa fundið bókargjöf Rask með áritun hans sé aðeins eitt dæmi þar um. „Það sem hefur ekki verið gert lengi – og jafnvel ekki áratugum saman – er að fletta þessum bókum og það er það sem ég er að gera. Eins og við vitum var oft verið að skrifa inn í bækur í gamla daga og ég hef fundið eitt og annað forvitnilegt,“ segir Brynjar og nefnir dæmi.
Eitt þeirra dæma snýr að nafni Láru Ólafsdóttur, titilpersónu í Bréfi til Láru eftir Þórberg Þórðarson og nú slær sögukennarinn varnagla áður en lengra er haldið, að sið vandaðra fræðimanna sem taka sig alvarlega.
„Ég tek það fram að þetta eru mínar rannsóknir og mínar niðurstöður og auðvitað ber ég þær undir fólk í kringum mig. Engu að síður er alltaf hægt að draga þær í efa,“ segir hann og heldur áfram.
„Ég tel nokkuð víst að ég hafi fundið Kvennafræðarann eftir Elínu Briem, eintak sem var í eigu Láru Ólafsdóttur, vinkonu Þórbergs, og auk þess bók frá 1844 sem er merkt Friðriksgáfu 17. febrúar 1869. Friðriksgáfa var sem kunnugt er gjöf Friðriks VI. Danakonungs og reist árið 1829 en brann til kaldra kola vorið 1874,“ segir Brynjar sem ofan á framangreint fann bókargjöf frá Konráði Gíslasyni Fjölnismanni til Oddgeirs Stephensen ráðuneytisstjóra.
Er því ekki örgrannt um að grúskarar og fræðimenn á Norðurlandi séu iðnir við kolann og verður forvitnilegt að sjá hverju eljuverk Brynjars Karls Óttarssonar sögukennara í kjallara Amtsbókasafnsins á Akureyri eykur við þekkingu bókaþjóðarinnar í norðri er fram líða stundir.
Við hæfi er að slá botninn í viðtalið með klausu úr umfjöllun Brynjars á Grenndargralinu um bók málfræðingsins danska:
Tíminn sem nú er liðinn frá því að Rasmus Rask áritaði bók fyrir amtmann er orðinn langur. Ferðalag bókarinnar frá amtmannssetrinu gamla yfir í hillu Amtsbókasafnsins er hins vegar ekki svo ýkja langt.