Djúp lægð fer hratt til norðurs fyrir vestan land. Veðrið er einna verst norðvestantil á landinu. Rólegra veðri er spáð á morgun.
Þetta kemur fram í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
„Djúp lægð fer hratt til norðurs fyrir vestan land, hún beinir til okkar sunnan illviðri nú í morgunsárið og er veðrið einna verst norðvestantil á landinu. Lægðin fjarlægist hins vegar í dag og það dregur talsvert úr vindi og úrkomu, sunnan 10-18 m/s eftir hádegi og skúrir eða él, en yfirleitt þurrt um landið norðaustanvert. Kólnar í veðri. Í kvöld gengur nokkuð kröpp lægð norður yfir landið og það bætir í vind um tíma,“ segir í hugleiðingunum.
Mun rólegra veðri er spáð á morgun. „Þá er útlit fyrir sunnan og suðaustan golu eða kalda og él, en úrkomulítið norðanlands. Hiti um eða undir frostmarki. Annað kvöld nálgast næsta lægð með vaxandi austanátt og úrkomu í flestum landshlutum,“ segir í hugleiðingunum.
Á mánudag verður lægðin í grennd við landið og eru líkur á að hún valdi óveðri. Í hugleiðingum veðurfræðings segir þó að spár séu enn talsvert á reiki.