Guðmundur Jónsson vélfræðingur lést 3. febrúar síðastliðinn, 92 ára að aldri, eftir skamma dvöl á Hjúkrunarheimilinu Skjóli.
Guðmundur fæddist í Reykjavík 27. apríl 1932. Foreldrar Guðmundar voru hjónin Jón Jóhannes Ármannsson stýrimaður og Guðlaug Margrét Guðmundsdóttir húsfreyja.
Guðmundur gekk í Miðbæjarbarnaskólann og lauk síðar námi í vélfræðum í Iðnskólanum í Reykjavík, starfsnámi hjá Vélsmiðjunni Héðni og vélstjórnarprófi frá Vélstjóraskólanum í Reykjavík. Hann hóf snemma störf við sjósókn, m.a. við síldveiðar á mótorbátnum Svani. Hann var vélstjóri eina vertíð á hvalbát, sem gerði út frá Hvalfirði, og síðar vélstjóri hjá Ríkisskipum, á Herðubreið og Skjaldbreið, og síðar á skipum Eimskipafélags Íslands, m.a. fraktskipunum Tröllafossi og Lagarfossi. Guðmundur starfaði lengst af sem vélfræðingur hjá Vatnsveitu Reykjavíkur.
Guðmundur var keppnismaður á skíðum fyrir KR og vann til ýmissa verðlauna á þeim vettvangi. KR veitti honum heiðursmerki fyrir framgöngu sína fyrir íþróttafélagið. Guðmundur sat í stjórn hverfafélags sjálfstæðismanna í Bústaðahverfi til margra ára. Hann var tilnefndur af borgarstjórn Reykjavíkur til setu í Sparisjóði vélstjóra, þar sem hann sat í stjórn um árabil. Hann var einnig í stjórn Lagnafélags Íslands í fjögur ár, þar af formaður í þrjú ár.
Eiginkona Guðmundar var Jóna Gróa Sigurðardóttir, f. 1935, d. 2015, formaður Verndar og borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Börn Guðmundar og Jónu Gróu eru Ingunn Guðlaug, f. 1954, Sigurður, f. 1957, Helga, f. 1958, og Auður Björk, f. 1966. Sonur Guðmundar fyrir hjónaband er Ívar Gissurarson, f. 1953. Afabörnin eru 11 og langafabörnin 23.