„Galið að stimpla málið á svartan húmor“

Sindri Snær Birgisson í Landsrétti í gærmorgun.
Sindri Snær Birgisson í Landsrétti í gærmorgun. mbl.is/Karítas

„Við sem sam­fé­lag verðum að setja mörk,“ sagði Anna Barbara Andra­dótt­ir sak­sókn­ari í mál­flutn­ingi sín­um í hryðju­verka­mál­inu í Lands­rétti. Hún sagði það ekki vera gott for­dæmi ef hægt væri að und­ir­búa hryðju­verk en segja það síðan vera djók án nokk­urra af­leiðinga.

Ákæru­valdið fer fram á að Sindri Snær Birg­is­son verði sak­felld­ur fyr­ir til­raun til hryðju­verka og að Ísi­dór Nathans­son verði sak­felld­ur fyr­ir hlut­deild í broti Sindra.

Þá er farið fram á refsiþyng­ingu fyr­ir vopna­laga­brot tví­menn­ing­anna. Sindri var dæmd­ur í 24 mánaða fang­elsi og Ísi­dór í 18 mánaða fang­elsi í Héraðsdómi Reykja­vík­ur fyr­ir tæp­lega ári síðan.

Anna Barbara minnt­ist á að verj­end­ur ákærðu færu fram á frá­vís­un ákæru um til­raun til hryðju­verka. Ákæru­valdið hafn­ar þeirri kröfu og vísaði sak­sókn­ar­inn í dóm héraðsdóms þar sem sagði að Sindri hefði haft „ein­hvers kon­ar ill­virki“ í huga.

Anna Barbara Andradóttir saksóknari hjá Ríkissaksóknara í Landsrétti í gærmorgun.
Anna Barbara Andra­dótt­ir sak­sókn­ari hjá Rík­is­sak­sókn­ara í Lands­rétti í gær­morg­un. mbl.is/​Karítas

Ásetn­ing­ur­inn

Ásetn­ing­ur tví­menn­ing­anna var ein af helstu ástæðum þess að þeir voru sýknaðir í héraði, og fjallaði Anna Barbara því mikið um það.

Í áfrýjaða dóm­in­um sagði að for­senda þess að unnt væri að sak­fella ákærðu fyr­ir til­raun til hryðju­verka væri að þeir hefðu „ótví­rætt sýnt þann ásetn­ing í verki, sem miðar eða er ætlað að miða að fram­kvæmd brots­ins“.

Í þeim efn­um gæti tvennt komið til, ann­ars veg­ar fram­kvæmda­at­hafn­ir og hins veg­ar und­ir­bún­ings­at­hafn­ir.

Ljóst er að Sindri og Ísi­dór fram­kvæmdu ekki hryðju­verk og eft­ir stæði því hvort ákæru­valdið hafi sannað að menn­irn­ir hefðu „ótví­rætt“ verið að und­ir­búa hryðju­verk. Héraðsdóm­ur taldi það ekki hafa verið sannað.

For­dæma­laust mál

Anna Barbara kom inn á að ekki hef­ur áður verið dæmt fyr­ir brot á 100. gr. a. al­mennra hegn­ing­ar­laga, þ.e.a.s. hryðju­verk.

Það sem ger­ir málið enn sér­stak­ara er að ákært er fyr­ir til­raun­ar­brot. Vana­lega fjalla dóm­stól­ar um brot sem eru kom­in á fram­kvæmd­arstig, en það eigi ekki við í þessu til­felli held­ur er um und­ir­bún­ings­stig að ræða.

Anna Barbara sagði skil­in milli und­ir­bún­ings og fram­kvæmd­ar skipta litlu máli þar sem ljóst sé að und­ir­bún­ing­ur geti leitt til refsi­á­byrgðar. Þá sagði hún að orðið ótví­rætt ætti ekki að tak­marka refsi­á­byrgð á und­ir­bún­ings­at­höfn­um.

Dönsku lög­in rýmri

Sak­sókn­ar­inn kom inn á að dönsk lög eru for­dæmi ís­lensku lag­anna og sagði öll stig ásetn­ings koma til greina í þeim dönsku.

Í dómi héraðsdóms seg­ir að sá mun­ur sé á orðalagi ís­lensku og dönsku lag­anna að þau síðari inni­halda ekki orðið „ótví­rætt“.

„Get­ur þetta gefið til kynna aðeins væg­ari sönn­un­ar­kröf­ur til und­ir­bún­ings­at­hafna að dönsk­um rétti í sam­hengi við mat á ásetn­ingi,“ seg­ir í áfrýjaða dóm­in­um.

Lif­um í ákveðinni búbblu

Anna Barbara sagði Íslend­inga lifa í ákveðinni búbblu hvað varðar sögu um voðaverk, en að þetta beri að taka al­var­lega líkt og dæm­in í ná­granna­lönd­um okk­ar sýna.

Hún sagði það vera „galið að stimpla málið á svart­an húm­or ein­stak­linga“.

Sak­sókn­ar­inn sagði tví­menn­ing­ana hafa sýnt ótví­rætt í verki ásetn­ing sinn með und­ir­bún­ings­at­höfn­um sem eru í 64 liðum í ákær­um. Hún sagði lög­fulla sönn­un vera til staðar um ásetn­ing þeirra.

Und­ir­bún­ing­ur­inn sner­ist að því að hafa aflað sér skot­vopna, skot­færa og íhluta í skot­vopn, átt í sam­skipt­um um hryðju­verk, til­einkað sér efni þekktra hryðju­verka­manna, orðið sér úti um efni og upp­lýs­ing­ar um sprengju- og dróna­gerð, kynnt sér efni tengt mögu­leg­um árás­arþolum og reynt að verða sér úti um lög­reglufatnað.

Anna Barbara fór yfir þess­ar und­ir­bún­ings­at­hafn­ir og sagði mik­il­vægt að horfa á heild­ar­mynd­ina. Nokkr­um sinn­um hristu Sindri og Ísi­dór höfuðið yfir mál­flutn­ingi sak­sókn­ar­ans.

Ísidór Nathansson er ákærður fyrir hlutdeild í broti Sindra.
Ísi­dór Nathans­son er ákærður fyr­ir hlut­deild í broti Sindra. mbl.is/​Karítas

Aug­ljós veg­ferð

Anna Barbara sagði að sam­skipti tví­menn­ing­anna hafi ekki ein­ung­is átt sér stað á einni kvöld­stund. Um væri að ræða margra mánaða sam­tal á milli full­orðinna karl­manna sem byggju ekki við greind­ar­skort eða and­lega fötl­un. Ann­ar væri yf­ir­lýst­ur kynþátta­hat­ari og hinn hefði lýst andúð sinni á sam­kyn­hneigðum.

Þeir hefðu orðið sér úti um skot­vopn, talað um áætlan­ir sín­ar, lýst aðdáun sinni á þekkt­um hryðju­verka­mönn­um, gert inn­kaupal­ista, ætlað að verða sér úti um lög­reglufatnað og höfðu haft getu og kunn­áttu til að þrívídd­ar­prenta sprengju­dróna.

Hún sagði aug­ljóst á hvaða veg­ferð slík­ir ein­stak­ling­ar eru.

Eina leið lög­reglu til að stíga inn í

Anna Barbara sagði að þó að í gögn­um máls­ins lægi ekki fyr­ir hvar og hvenær Sindri og Ísi­dór ætluðu að láta til skar­ar skríða þá hitt­ust þeir mikið á þess­um tíma og töluðu sam­an í síma.

Hún nefndi að und­ir­bún­ing­ur gæti tekið marga mánuði eða ár en að fram­kvæmd­in sjálf gæti tekið sek­únd­ur. Eng­in leið væri fyr­ir lög­reglu að stíga inn í nema á und­ir­bún­ings­tím­an­um.

Sak­sókn­ar­inn sagði hár­fína línu vera þar á milli.

Tók hún sem dæmi skila­boð sem Sindri sendi á Ísi­dór þar sem hann sagðist hafa verið með AR-15 riff­il í Hafnar­f­irði en að hann gæti ekki gert mikið með þrem­ur kúl­um.

„Hvað hefði lög­regla getað gert mikið?“ spurði Anna Barbara. Þá spurði hún hvort það hefði breytt máls­at­vik­um ef Sindri hefði verið með sprengju eða dróna.

Sindri neitaði í gær að hafa nokk­urn tím­ann verið með skot­vopn í Hafnar­f­irði.

Hvatti, hrósaði og sendi efni

Anna Barbara sagði Ísi­dór vera „úti um allt“ í mál­inu. Hann hefði hvatt, hrósað og sent Sindra efni og komið að fram­leiðslu skot­vopna.

Þá nefndi hún að hann hefði eytt tals­vert af efni áður en hann var hand­tek­inn sem lög­regla náði að end­ur­heimta að hluta. Meðal ann­ars fannst drög að mani­festói.

Ísi­dór sagði fyrr í dag að hann hefði eytt efni af því hann óttaðist að vera hand­tek­inn af því að hann vissi „hvernig þetta liti út“.

Sak­sókn­ar­inn sagði Ísi­dór hafa áhuga á þjóðern­is­hyggju, skot­vopn­um og mann­dráp­um. Því væri ljóst á hvaða veg­ferð hann var á.

Eng­inn bil­bug­ur

Anna Barbara sagði fé­lag­ana vissu­lega hafa talað um annað á því tíma­bili sem um ræðir, en verj­end­ur hafa gagn­rýnt að sam­skipt­in hafi verið klippt og tek­in úr sam­hengi.

„Hvenær hætt­ir grín að vera grín?“ spurði sak­sókn­ar­inn og sagði menn­ina vera fulla af hatri og for­dóm­um og tala um að drepa fólk. Hún sagði það ekki stand­ast neina sönn­un að sam­skipti þeirra hafi verið grín.

Þá minnt­ist Anna Barbara á að öfga­sam­tök hefðu haft sam­band við Ísi­dór. Hann sagði sjálf­ur frá því í skýrslu­töku í morg­un en sagðist aldrei hafa tekið þátt í neinu slíku.

Hún sagði eng­an bil­bug hafa verið á mönn­un­um og að lög­regla hafi komið í veg fyr­ir voðaverk með því að hand­taka þá.

Sagði Sindra hroka­full­an

Anna Barbara sagði margt í framb­urði þeirra sem kæmi ekki heim og sam­an við sönn­un­ar­gögn máls­ins.

Hún lýsti Sindra sem hroka­full­um, hefði gert lítið úr vinnu­brögðum lög­reglu og verið með út­úr­snún­inga.

Sak­sókn­ar­inn sagði skýr­ing­ar um að fróðleiks­fýsn til dægra­stytt­ing­ar ekki stand­ast skoðun.

Refsiþyngd lögð í mat dóms­ins

Að lok­um vitnaði Anna Barbara í danska dóma þar sem sak­born­ing­ar hefðu verið komn­ir skemmra á veg í und­ir­bún­ingi sín­um.

Hún sagði þá dóma geta verið til leiðbein­ing­ar eða leiðsagn­ar.

Sak­sókn­ar­inn lagði það í mat dóms­ins að ákv­arða refsiþyngd. Hún nefndi að er­lend­is hefði fólk verið dæmt í allt að 15 ára fang­elsi og sagði þó að ákæru­valdið telji það mjög harða refs­ingu.

Aðalmeðferð máls­ins í Lands­rétti lýk­ur á morg­un með mál­flutn­ingi verj­anda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert