Ef tollastríð myndi skella á myndi það auka verulega kostnað við alþjóðaviðskipti og flutning á milli landa og slíkt myndi leiða til aukinnar verðbólgu og hafa neikvæð áhrif á efnahagsumsvif, bæði erlendis en líka hér á landi. Vendingar síðustu daga auka á þessa óvissu. Hins vegar gæti tollastríð og minnkandi hagvöxtur hér á landi leitt til lækkandi vaxta.
Þetta var meðal þess sem kom fram í máli nefndarmanna í peningastefnunefnd Seðlabankans á kynningarfundi í morgun þar sem vaxtaákvörðun bankans var kynnt. Varaði seðlabankastjóri þar við því að ef útflutningsatvinnugreinar myndu skaðast vegna tollastríðs myndi það lækka lífskjör hér á landi.
Karen Áslaug Vignisdóttir, nýr aðalhagfræðingur bankans, fór fyrst yfir stöðuna eins og hún blasti við sér:
„Óvissa hefur aukist verulega, sérstaklega hvað varðar alþjóðaviðskipti. Það hefur verið ótti við vaxandi fylgi við verndarstefnu í alþjóðaviðskiptum eftir kjör nýs forseta, sérstaklega í Bandaríkjunum. Ef slæmar sviðsmyndir raungerast í þeim efnum hvað varðar mögulegt tollastríð myndi það auka verulega kostnað við alþjóðaviðskipti, auka flutningskostnað milli landa, myndi leiða til aukinnar verðbólgu og hafa mjög neikvæð áhrif á efnahagsumsvif.
Auðvitað myndi það hafa mest áhrif á þau lönd sem verða fyrir þessu, en á endanum myndi það hafa áhrif á allan heimsbúskapinn. Vendingar um helgina og á síðustu dögum voru nú ekki til að minnka þessa óvissu, heldur þvert á móti,“ sagði Karen.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri svaraði svo spurningu úr sal um hvort tollastríð myndi leiða til hærri eða lægri vaxta á þann veg að það myndi leiða til lægri vaxta, enda myndi tollastríð kæla hagkerfið. „Öll óvissan er niður á við, það er að segja að svo miklu leyti sem tollastríð og önnur vandræði í alþjóðamálum leiða ekki til þess að það verði aðlögunarvandi á gjaldeyrismarkaði eða greiðslujöfnuði. Allt sem veikir hið íslenska hagkerfi leiðir til þess að vextir verði lægri.“
Líkti Ásgeir áhrifum af tollastríði við það sem gerðist í faraldrinum, það er þegar rof varð á framleiðslukeðjum þegar framboðshliðin gaf eftir. Þá hafi starfsfólk ekki komið til baka á vinnumarkað og framboð minnkaði varanlega. Þannig byrjaði verðbólgan og hafði mikil áhrif.
Segir Ásgeir að ef slíkt rof á framleiðslukerfum yrði vegna tollastríðs myndi það væntanlega hækka vöruverð um allan heim og þá hér á landi í formi innflutningsverðs.
Þá gæti þetta einnig leitt til þess að útflutningur frá Íslandi minnkaði. Segir hann bankann þá þurfa að spila eftir því, enda yrði minni hagvöxtur, en jafnhliða því lægri vextir. En bankinn gæti mögulega brugðist við í gegnum greiðslujöfnuð. „Mögulega er besta leiðin til að hugsa um áhrif af tollastríði að hugsa hvernig Covid kom út varðandi framleiðslukeðjurnar,“ sagði Ásgeir.
Tók hann hins vegar fram að Seðlabankinn hefði velt mikið fyrir sér allskonar viðbúnaði eftir að stríðið í Úkraínu braust út. Það eigi við öryggi í greiðslumiðlun og að bankarnir hafi mikið eigið fé. Þá sé Ísland ekki lengur háð umheiminum um erlent fjármagni þar sem Ísland sé nettó eigandi fjármagns. Þá hafi Seðlabankinn reynt að takamarka innflæði skammtímafjármagns eða spákaupmennsku, enda sé slíkt fé fljótt að hverfa þegar órói verði á alþjóðamörkuðum. Þar sem ekki sé mikill seljanleiki eigna hér á landi hverfi slíkt fjármagn frá Íslandi til markaða sem eru með meiri seljanleika.
Þórarinn G. Pétursson, varaseðlabankastjóri peningastefnu sagði takmarkað hægt að gera hér ef til alþjóðlegs tollastríðs kæmi.
„Varðandi tollastríð og peningastefnuna þá er takmarkað hvað peningastefnan bæði hér og í öðrum löndum getur gert þegar heimurinn ákveður að skaða sjálfan sig með þessum hætti. Fókusinn á peningastefnunni hér er verðstöðugleiki og ákvarðanir peningastefnunefndar endurspegla það ef það verður tollastríð, sérstaklega ef við lendum röngu megin við, þ.e.a.s. ef það lenda tollar á okkar útflutning. Þá mun það hafa áhrif á raunhagkerfið hér og hversu mikið Seðlabankinn getur reynt að dempa þau áhrif fer eftir því hvort við höfum náð þessum markmiðum um verðstöðugleika eða ekki. Ef við erum enn að glíma við verðbólgu yfir markmiði þá er ekkert svigrúm fyrir peningastefnuna til að dempa það,“ sagði Þórarinn.
Vísaði Þórarinn í rannsóknir sem gerðar hefðu verið á fyrra kjörtímabili Trumps og að þar komi fram að aukin óvissa hafi haft áhrif á hagvöxt í alþjóðakerfinu. „Nú er þessi óvissa miklu meiri heldur en var þá.“
Ásgeir ítrekaði að lokum mikilvægi útflutningsgreinanna og stöðu Íslands og hver áhrif af tollastíði gætu orðið. „Ef að útflutningsatvinnuvegar skaðast, að það séu lagðir tollar á okkur, þá mun það leiða til að lífskjör hér lækka og það getur enginn mannlegur máttur á Íslandi allavega komið í veg fyrir það. Mjög mikilvægt að Íslendingar geri sér grein fyrir því að við erum á eyju og lifum á því sem við seljum öðrum þjóðum og lífskjör okkar byggjast á því en ekki launaleiðréttingar og hvað við eigum skilið. Það virkar ekki alveg þannig.“