Stöðugt hefur verið um útköll hjá slökkviliðinu og lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í kvöld vegna óveðursins sem gengur nú yfir landið. Innivarðstjóri segir útköllunum nú fyrst fara fækkandi.
Guðjón Ingason, innivarðstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að flest verkefnin hafi verið tengd vatns- og foktjónum. Mikið hafi verið um þakkanta og þakplötur að losna af húsum.
Aðspurður segist hann ekki hafa nákvæma tölu á fjölda verkefna í dag en að þau séu eitthvað í kringum 140 sem hafi dreift sér á milli viðbragðsaðila.
Önnur rauð veðurviðvörun tekur gildi klukkan átta í fyrramálið og stendur yfir til klukkan 13.