Segir stöðuna ekki hafa áhrif á þingstörf

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ný staða Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, innan Evrópuráðsins mun ekki hafa áhrif á störf hennar fyrir flokkinn á þingi.

Þetta upplýsir Þórdís Kolbrún í samtali við mbl.is.

Greint var frá fyrr í dag að þingmaðurinn hefði verið skipaður sérstakur erindreki Evrópuráðsins í málefnum barna í Úkraínu.

Mun ekki hafa áhrif á þingstörf

Mun þetta hafa áhrif á störf þín á þinginu?

„Nei, þetta gerir það ekki. Þetta er starf meðfram þingstörfum og er ólaunað. Auðvitað er þetta vinna og þetta eru ferðalög en þetta er hugsað meðfram þingstörfum.“

Segir Þórdís að gífurlega mikil vinna sé unnin innan Evrópuráðsins og þar séu málefni Úkraínu, í breiðu samhengi, í forgangi. Því séu mörg stór verkefni sem unnið sé að innan ráðsins og þar margir hverjir í fullu starfi.

Hennar staða sé aftur á móti ný af nálinni og endurspegli forgangsröðun Evrópuráðsins og nýs framkvæmdastjóra þess.

„Þetta er ný staða og er hugsuð til þess að tala fyrir hönd ráðsins og framkvæmdastjórans, vinna náið með honum og þeim aðilum sem eru víða að vinna að þessum verkefnum, hvort sem það er í öðrum alþjóðastofnunum eða frjálsum félagasamtökum inni í Úkraínu o.s.frv.“

Leituðu sjálfir til Þórdísar

Þórdís gegnir starfinu frá og með deginum í dag og segist hún hlakka mikið til að takast á við áskorunina.

„Þetta er stórt verkefni og auðvitað heiður að leitað sé til mín með að taka þetta að mér og ég mun einfaldlega leggja mig alla fram og gera allt sem ég get til þess að verða að gagni,“ segir Þórdís sem jafnframt staðfestir að leitað hafi verið til hennar um að taka starfið að sér.

„Ég geri ráð fyrir því að fara fljótlega aftur út og geta þar sest niður með því fólki sem er að vinna í þessu.“

Að sögn Þórdísar verður starfið þar mótað nánar út frá skipunarbréfi starfsins, sem unnið er út frá, en þar má finna helstu áherslur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert