Héraðsdómur Reykjaness dæmdi mann í dag til greiðslu 100.000 króna sektar, ellegar átta daga fangelsis við greiðslufall, að sæta upptöku á haldlagðri tölvu og greiða einn sjötta hluta rúmlega þriggja milljóna króna málsvarnarlauna verjanda síns á móti ríkissjóði.
Í ákæru var manninum gefið að sök kynferðisbrot með því að hafa um nokkurt skeið árið 2022, fram til þriðjudagsins 13. desember það ár, framleitt, aflað sér og haft í vörslum sínum, myndefni sem sýndi barnakynlífsdúkkur, sem ákærði lét líkja eftir börnum og kyngerði sem börn, á kynferðislegan hátt og í kynferðislegum athöfnum, ákærða hafa kynmök við barnakynlífsdúkku, og einnig myndefni sem sýndi börn á kynferðislegan hátt, og þar sem líkt var eftir börnum á kynferðislegan hátt í sýndarmyndum og teiknimyndum.
Er háttsemi hans nánar lýst í 1. til 4. ákærulið auk þess sem dómurinn gerir grein fyrir stöðu og högum hans, launþega í fullri vinnu sem á uppkomin börn – er ekki í sambandi við þau – og hefur búið einn um skeið.
Hafi hann á þeim tíma safnað miklum fjölda erótískra mynda í formi plakata og komið þeim fyrir á veggjum íbúðar sinnar, en við skýrslutökur bar maðurinn að hann nyti þess að taka erótískar myndir af dúkkunum og horfa á þær í tölvu.
„Ákærði er meðvitaður um að lífsstíll hans og heimilishald sé óvenjulegt, en segist hafa mikinn félagsskap af dúkkunum, engum hafa unnið mein og hann aldrei lagst á börn eða haft kynferðislega löngun til barna. Að sögn ákærða umgengst hann nær enga utan vinnu,“ segir í dómi.
Lögreglumenn komu á heimili mannsins er hann kallaði sjálfur til lögreglu og tilkynnti um hugsanlegt innbrot í íbúðina þar sem öryggiskerfið væri í gangi.
„Áður en lögreglumenn fóru inn í íbúðina bað ákærði þá að tala ekkert um það sem þeir myndu sjá innandyra og ekki fara inn í svefnherbergi. Er inn kom ráku lögreglumennirnir augu í að íbúðarveggir voru þaktir klámmyndaplakötum og í stofunni var kvikmyndatökuvél á þrífæti. Þrátt fyrir tilmæli ákærða fóru sömu lögreglumenn inn í svefnherbergi hans og sáu hvar tvær kynlífsdúkkur á stærð við fullorðnar manneskjur lágu í hjónarúmi og í barnarúmi þar við hlið lágu tvær kynlífsdúkkur í barnastærð. Lögreglumennirnir aðhöfðust ekkert frekar, en við komu á lögreglustöð tilkynntu þeir um aðstæður á heimili ákærða,“ segir svo.
Var húsleit framkvæmd hjá manninum að boði löglærðs fulltrúa hjá lögreglunni og hann handtekinn vegna gruns um vörslur og framleiðslu á barnaníðsefni með minni dúkkunum tveimur
„Að sögn ákærða notaði hann stærri dúkkurnar til kynlífsathafna, en minni dúkkurnar væru einungis til að halda honum félagsskap. Í svefnherberginu hafi m.a. fundist barnafatnaður, bleyjur og snuð og ákærði sagst klæða minni dúkkurnar í barnaföt.
Aðspurður um tvær stærri dúkkurnar kvað ákærði þær vera kynlífsleikföng sem hann dundaði sér við að mála og klæða í föt og hefði einnig samræði við. Hann líti á þær sem vini sína og elskendur og hefði af þeim mikinn félagsskap þótt þær geti ekki talað til baka,“ segir í dómi héraðsdóms um framburð mannsins
Skilaði dómkvaddur geðlæknir matsgerð meðan á rekstri málsins stóð, en tókst ekki að staðfesta af eða á um hvort hann væri haldinn barnagirnd og teldist sakhæfur. Glímdi hann hins vegar við kynlífsvanda sem flokkist undir „paraphiliu F65.9“.
Var niðurstaða geðlæknisins sú að ekkert benti til annars en að maðurinn hefði verið fullfær um að stjórna gerðum sínum og teljist því sakhæfur í skilningi hegningarlaga.
Kom til kasta dómsins að úrskurða um hvort hann teldist sannur að sök um kynferðisbrot að einhverju leyti eða öllu miðað við þá háttsemi er lýst var í ákæru.
„Þykir í því sambandi rétt að árétta að málsókn ákæruvaldsins er hvorki á því reist að ákærða hafi verið óheimilt að flytja minni kynlífsdúkkurnar tvær til Íslands né heldur að honum sé eða hafi verið óheimilt að hafa kynferðislegt samneyti við þær að vild á eigin heimili.
Þannig lýtur meint, refsiverð háttsemi samkvæmt 1. og 2. ákærulið eingöngu að því að ákærða hafi verið óheimilt að framleiða og hafa í sínum vörslum ljósmyndir sem sýna dúkkurnar tvær á kynferðislegan hátt. Fallist er á með ákærða að önnur dúkkanna; sú barmstóra og kvenlega, þótt lág sé í loftinu og hafi fremur barnslegt andlit, beri öll önnur og helstu svipkenni fullorðinnar konu og beri því að gjalda varhuga við að slá föstu að dúkkan sé „barnakynlífsdúkka“ og að með myndatöku af henni sé augljóslega líkt eftir barni í skilningi íslenskra laga,“ segir í rökstuðningi héraðsdóms.
Fallast beri þó á það með ákæruvaldinu að hin dúkkan hafi fá svipkenni fullorðinnar konu og barnslegt andlit. Sé hún þó útbúin með skapa- og endaþarmsop og framleidd með það í huga að hafa ásýnd stúlku.
Varð niðurstaðan sú að ákærði hefði hvorki mátt vita né getað séð fyrir með einhverri vissu að það varðaði refsingu að taka og hafa í vörslum þær ljósmyndir sem ákært var fyrir í 1. og 2. tölulið ákæru.
„Ber þegar af þeirri ástæðu að sýkna ákærða af þeim ákæruliðum. Að því er varðar sakarefni samkvæmt 3. tölulið ákæru velkist dómurinn ekki í vafa um að ákærði beri ábyrgð á því að umræddar átta ljósmyndir voru vistaðar á hörðum diski turntölvu hans. Að því sögðu er sú viðbára ákærða haldlaus að sömu myndir hafi slæðst óvart inn á harða diskinn, enda afar ósennilegt að einstaklingar rati inn á vefsíður sem innihalda barnaklám fyrir tilviljun og að slíkar myndir komi upp við leit á almennum leitarvélum,“ segir í rökstuðningi.
Þá taldi dómurinn hafið yfir skynsamlegan vafa að taka og varsla á tveimur ljósmyndum af gervigreindarstúlkunni „Lolitu“ væri refsiverð í skilningi hegningarlaga.
Taldi dómurinn að lokum, hvað aðrar ljósmyndir snerti, að varhugavert væri að slá því föstu að myndirnar sýndu stúlkur undir átján ára aldri og bæri að því leyti að sýkna manninn af 3. ákærulið.
„Ákærði var upphaflega ákærður fyrir mun umfangsmeiri og fleiri brot en lagt var til grundvallar við upphaf aðalmeðferðar. Þannig var 2. ákærulið svo breytt að í stað 149 ljósmynda var endanlega ákært fyrir 25 myndir, í stað 14 ljósmynda samkvæmt 3. ákærulið var endanlega krafist sakfellingar fyrir átta myndir og fallið var frá ákæru fyrir meinta refsiverða háttsemi ákærða samkvæmt 4. ákærulið, með því að hafa hangandi á veggjum íbúðar sinnar sjö af 86 meintum klámmyndum/klámplakötum,“ segir þá í forsendum dómsins.
Samkvæmt sakavottorði hafi maðurinn fyrir mjög löngu síðan hlotið skilorðsbundinn dóm fyrir vörslur á barnaklámi. Hafi hann staðist skilorð á þeim tíma og áhrif þess dóms því engin við rekstur þess máls er hér er til umfjöllunar.
„Ákærði er sakhæfur. Að gættum þeim brotum sem hann er nú sakfelldur fyrir þykir refsing hæfilega ákveðin 100.000 króna sekt til ríkissjóðs, sem ákærði greiði innan fjögurra vikna frá dómsbirtingu, en sæti ella fangelsi í átta daga,“ segir að lokum í forsendum auk þess sem þar er kveðið á um upptöku tölvunnar auk málsvarnarlauna verjanda að hluta.