„Stendur ekkert til að létta þessu taumhaldi“

Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri og formaður peningastefnunefndar.
Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri og formaður peningastefnunefndar. mbl.is/Karítas

Seðlabankastjóri segir ekki standa til að létta á taumhaldi peningastefnunnar og vel gangi að ná niður verðbólgu með núverandi taumhaldi. Ekki verði tími til að létta á taumhaldinu fyrr en verðbólguþrýstingur taki að réna.

Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri og formaður peningastefnunefndar, kynnti ákvörðun nefndarinnar að lækka stýrivexti bankans um 0,5 prósentustig fyrr í dag. Eru stýrivextirnir nú í 8% og hafa lækkað úr 9,25% sem þeir voru hæstir í.

Efast um tölur Hagstofunnar um samdrátt

Á kynningarfundinum var Ásgeir spurður út í taumhald peningastefnunnar og hvort kæmi til greina að létta aðeins á því. „Ég held að yfirlýsingin sé skýr um það að það standi ekkert til að létta þessu taumhaldi, enda gengur þetta nokkuð vel. Vaxtalækkunarferlið er að einhverju leyti rekið áfram af áframhaldandi lækkun verðbólgu,“ svaraði Ásgeir.

Benti hann jafnframt á að þótt tölur Hagstofunnar segi nú að það hafi verið samdráttur á hagvexti í fyrra hafi bankinn sínar efasemdir. „Mögulega kann það að breytast þegar stofnunin endurskoðar tölurnar,“ segir Ásgeir.

Þórarinn G. Pétursson, varaseðlabankastjóri peningastefnu, bætti við þetta svar. „Þjóðhagsreikningar benda til að það hafi verið samdráttur í fyrra, en við höfum nokkrar efasemdir um að það sé. Ef við horfum á aðrar vísbendingar þá er það ekki að sjá að hér sé samdráttur, en það er klárlega að hægja á vexti og umsvifum.“

Þórarinn G. Pétursson, varaseðlabankastjóri peningastefnu.
Þórarinn G. Pétursson, varaseðlabankastjóri peningastefnu. mbl.is/Karítas

„Í rauninni liggur okkur ekkert á“

Taldi Þórarinn ekki kominn tíma til að létta taumhaldið. „Ég held að tíminn til að fara að létta eitthvað af alvöru á þessu taumhaldi er þegar við förum í og sjáum svo sannarlega merki um það að verðbólguþrýstingur sé í rénun. Þá stígum við skrefið. Þangað til verðum við að fara mjög varlega.“

Þá sagði hann enga tímapressu vera á að létta taumhaldið. „Í rauninni liggur okkur ekkert á. Þetta þjóðarbú stendur mjög sterkt. Hraði við að létta taumhaldið, það er engin aðkallandi þörf á því.“

Ásgeir sagði þá ljóst að taumhaldið hefði virkað mjög vel. Horft hefði verið til 400 punkta (4 prósentustiga) í þeim efnum og að það hafi virkað vel til að ná verðbólgunni niður. „Þetta taumhald hefur virkað mjög vel, þessi verðbólguhjöðnun. Raunhagkerfið er ótrúlega sterkt og við sjáum ekki merki um neina bresti enn þá,“ sagði Ásgeir.

Gæti orðið erfitt að ná verðbólgunni niður í markmið

Þrátt fyrir efasemdir seðlabankamanna um hagvaxtartölur sögðu þeir báðir ljóst að tekist hefði að hægja vel á kerfinu, en bankinn spáir því að það takist að ná framleiðsluslaka síðar á þessu ári.

Ásgeir velti þó upp þeirri spurningu hvort hlutir væru að ganga of vel til að þeir gætu í raun staðist. Það verði að koma í ljós hvort verðbólguhjöðnunin sé að ganga upp. Hvort hægt sé að komast í gegnum milda niðursveiflu, ná niður verðbólgu, ná stöðunni í jafnvægi og á sama tíma ná niður verðbólguvæntingum. „Við höfum áhyggjur af því að verðbólguvæntingar séu enn of háar,“ bætti hann við.

Tók Ásgeir fram að það gæti orðið erfitt að ná verðbólgunni niður í 2,5% markmið bankans. Það gæti gengið að ná henni niður í þrjú komma eitthvað prósentustig, en það verði svo spurning hvernig gangi að komast „síðustu míluna“ og koma verðbólgu undir 3% og í markmið. „Maður veltir fyrir sér hvort þetta sé of gott til að vera satt og hvort fórnarkostnaðurinn við að ná niður verðbólgunni verði ekki meiri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert