„Við erum stöðugt á vaktinni. Það eru allir á tánum. Það er viðbúnaður alls staðar. Við erum með yfir 80 tæki til taks um land allt og okkar starfsmenn um allt land eru tilbúnir í alls kyns aðgerðir,“ segir Bergþóra Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri þjónustusviðs Vegagerðarinnar.
Hún var mætt niður í samhæfingarmiðstöð almannavarna þegar blaðamaður mbl.is náði af henni tali.
Segir Bergþóra að í augnablikinu séu ekki mikil vandræði á suðvesturhorninu en búið er að loka fjölmörgum vegum fyrir austan og norðan.
„Það er búið að loka Holtavörðuheiðinni og Öxnadalsheiðinni vegna óveðurs, kannski fyrst og fremst, en svo líka vegna ófærðar.“
Þá gerir Bergþóra ráð fyrir því að þegar starfsfólk loki vegum vegna veðurs verði ekki viðbúnaður úti á vegunum.
„Það yrði einfaldlega bara hættulegt fyrir okkar starfsfólk að vera úti að reyna að halda opnu.“
Hins vegar verði starfsfólk á tánum skyldi þurfa að grípa til neyðaraðgerða.
Segir Bergþóra að um sé að ræða meiri rigningu en snjókomu og verði því meira viðbragð að vakta ár, læki og vatnavexti sem gætu orðið vegna vonskuveðursins.
Þá hvetur hún fólk til að fylgjast með vef Vegagerðarinnar, umferdin.is, en þar uppfærir starfsfólk upplýsingar um vegi landsins reglulega.